Svipmynd frá torfærukeppni í gryfjunum við Fellsenda síðasta sumar. Ljósm. úr safni/ Guðbjörg Ólafsdóttir.

Torfærukeppni í Akrafjalli á laugardaginn

Fjórða umferð Íslandsmótsins í torfæru, Bílanaustartorfæran, fer fram í gryfjunum við Fellsenda við Akrafjall laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Það er Torfæruklúbbur Suðurlands sem annast framkvæmd keppninnar. Helga Katrín Stefánsdóttir, formaður klúbbsins, á von á harðri keppni og miklum tilþrifum:

„Keppnin í sumar hefur verið hörð og þrír ökumenn hafa verið í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Það eru þeir Haukur Viðar á Heklunni, Ingólfur á Guttanum og Þór Þormar á Thor. Haukur er kominn með smá forskot en það má ekkert út af bregða hjá honum síðustu tvær umferðirnar í mótinu. Það stefnir því í hörkukeppni á laugardaginn,“ segir Helga í samtali við Skessuhorn.

Þegar hafa 16 keppendur boðað komu sína þegar þessi orð eru rituð síðdegis á fimmtudag. Helga reiknar með að fleiri bætist við áður en skráningu lýkur. „Ég veit af tveimur sem eru að púsla saman vélum þessa dagana og fleirum í kringum allt land sem eru að íhuga þátttöku. Þannig að ég vona að það bætist nokkrir bílar til viðbótar í hópinn fyrir keppni,“ segir hún.

Undanfarið hefur klúbburinn verið að vinna í keppnissvæðinu og það farið að taka á sig mynd. „Við erum búin að vera að grafa og vinna í brautinni í gryfjunum. Ég litt á bæn þessa dagana og vona að það verði þurrt á keppnisdegi. En svæðið lítur mjög vel út og ég á von á hörku sjóvi á laugardaginn,“ segir Helga Katrín að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir