Þýskur veiðiþjófur gripinn í Krossá

Veiðiþjófur var gripinn í Krossá á Skarðsströnd síðastliðinn þriðjudag. Trausti Bjarnason, bóndi á Á og veiðivörður við Krossá, varð var við lítinn bláan bíl sem stöðvaði við ána um hálf tvö leytið og sá ungan mann með tösku stíga út. „Ég hélt að þarna væru á ferðinni leigutakarnir, sem ætluðu bara að ganga í veiðihúsið frá veginum. En síðan sá ég bílinn aka á brott á miklum hraða og manninn fara niður að ánni. Ég fer á staðinn að kanna málið og þar er maðurinn að veiða í rólegheitum undir brúnni,“ segir Trausti í samtali við Skessuhorn. „Ég veifa honum og hann kemur til mín. Þá kemur á daginn að maðurinn er Þjóðverji. Ég tala ekki þýsku en tókst að gera honum skiljanlegt að hann mætti ekki veiða í ánni án leyfis,“ segir Trausti og bætir því við að maðurinn hafi brugðist ókvæða við því og mótmælt harðlega. „Ég sagði honum að ég myndi þá bara hringja á lögregluna, en þá tók hann til fótanna,“ segir hann. Við svo búið hafði Trausti samband við lögreglu. Á meðan beðið var eftir lögreglumanni frá Borgarnesi sást til mannsins við veiðar í ánni. „Hann var að veiða í rólegheitum þar til löggan kom. Fólk sem er í sumarbústað hér frammi á dal sá hann fá fisk,“ segir Trausti.

Verður sektaður

Lögregla kom á staðinn rúmum tveimur klukkustundum síðar og hafði hendur í hári veiðiþjófsins. Að sögn Jóns S. Ólasonar yfirlögregluþjóns bar maðurinn því við að hann hefði leyfi til að veiða í ám og vötnum á Íslandi á grundvelli veiðikorts sem hann hafði keypt í Þýskalandi árið 2015.

Lagt var hald á veiðistöng mannsins, urriða sem hann hafði veitt úr Krossá og tekin af honum skýrsla. Maðurinn á yfir höfði sér peningasekt, að sögn lögreglu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir