Fimleikahúsið sem nú er í byggingu verður sambyggt íþróttahúsinu við Vesturgötu. Ljósm. kgk.

Öllum tilboðum hafnað í fimleikabúnað

Á síðasta fundi skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar voru opnuð tilboð í búnað í fimleikahús sem nú er í byggingu við Vesturgötu á Akranesi.

Fjögur tilboð bárust og var þeim öllum hafnað. Verslunin Altis átti þrjú tilboðanna og það lægsta hljóðaði upp á rúmlega 111 milljónir króna. Fimleikar.is áttu næstlægsta tilboðið, tæpar 115 milljónir. Önnur tilboð Altis hljóðuðu upp á rúmar 116 milljónir og tæpa 121 milljón.

Kostnaðaráætlun sem ráðgjafa- og verktakafyrirtækið VSÓ gerði fyrir Akraneskaupstað hljóðar hins vegar upp á 70 milljónir króna.

Skipulags- og umhverfisráð ákvað því að hafna öllum tilboðunum á grundvelli kostnaðaráætlunar en horft verður til þess að bjóða út búnað í fimleikahúsið að nýju.

Líkar þetta

Fleiri fréttir