Þorgeir Þorgeirsson

Myndir Þorgeirs Þorgeirssonar kynntar á Icedocs.is

Kvikmyndahátíðin Iceland Documentary Film Festival hófst í gær á Akranesi og stendur  til 21. júlí. Hátíðin er alþjóðleg heimildamyndahátíð og á dagskrá eru myndir frá öllum heimshornum. Í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands hefur hátíðin sett saman sérstakt brautryðjandaprógram, þar sem meiningin er að kynna kvikmyndaáhugafólki verk íslenskra kvikmyndagerðarmanna fyrri kynslóða. Þetta fyrsta árið verða verk Þorgeirs Þorgeirsonar kynnt og hefur Kvikmyndasafnið af þessu tilefni skannað myndirnar inn í nýjum hágæða skanna safnsins og gert þær upp.

Þorgeir Þorgeirson lærði kvikmyndagerð í Prag í hinum virta FAMU kvikmyndaskóla, en hann var einn fyrstur Íslendinga til þess að stunda nám í kvikmyndagerð og hafa kvikmyndagerð að aðalstarfi. Höfundareinkennum Þorgeirs sem kvikmyndagerðarmanns má lýsa sem blöndu af realískum kvikmyndatökustíl og áberandi áhrifamikilli klippingu. Útkoman er einstök, sérstaklega þegar litið er til verka annarra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi frá þessum tíma. Myndirnar sem sýndar verða á hátíðinni eru Hitaveituævintýrið (1963), Grænlandsflug (1966), Maður og verksmiðja (1967), Að byggja (1967) og Róður (1972).

Sýningar á verkum Þorgeirs verða 18. júlí kl. 20:00 í Bíóhöllinni á Akranesi og sunnudaginn 21. júlí í kvikmyndasal Tónbergs á Akranesi. Ekkert kostar inn á sýningarnar, en taka þarf frá miða á heimasíðu hátíðarinnar icedocs.is. En einnig verða myndirnar til sýnis í nýjum sýningarsal Byggðarsafns Akranes dagana 19.-21. júlí.

Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á www.icedocs.is

Stilla úr myndinni How big is the Galaxy.

Stilla úr myndinni Bruce Lee & the Outlow.

Líkar þetta

Fleiri fréttir