Nýgenginn tveggja ára lax reynir hér að komast upp Glanna í Norðurá síðdegis í gær. Ljósm. Guðbjörg Ólafsdóttir.

Laxinn reynir uppgöngu í Glanna

Það var líf og fjör við hinn ægifagra Glanna í Norðurá síðdegis í gær. Í sólskini og hátt í tuttugu stiga hita var fjöldi ferðafólks sem naut þess að standa á útsýnispallinum og virða fossinn fyrir sér. Á veiðistöðum fyrir ofan fossinn renndu veiðimenn fyrir fisk, en fengu ekki. En gestirnir á útsýnispallinum gátu notið. Jafnt og þétt á nokkurra sekúntna millibili reyndu laxarnir uppgöngu í fossinum. Mest var þetta smálax en af og til mátti sjá tveggja ára fiska reyna að komast upp fatnsfallið. En vatnið er fremur lítið í ánni og átti laxinn því í erfiðleikum. Skullu ítrekað á klettinum á leið sinni niður í hylinn aftur. Sannarlega mikið sjónarspil.

Að sögn Magnúsar Fjeldsted veiðivarðar virðist sem laxinn reyni frekar uppgöngu í fossinum og talsvert er af laxi ofar í ánni, þótt hann sé ekki í tökustuði, enda vatnið heitt og súrefnislítið. Fáir laxar hafa hins vegar enn sem komið er farið í gegnum teljarann í laxastiganum. Veiðin í Norðurá hefur verið óvenjulega lítil á þessu ári og stefnir að óbreyttu í slakasta veiðisumar í manna minnum. Heildarveiðin alla síðustu viku var einungis 24 laxar á 15 stangir og fjöldinn úr ánni 107 laxar í gær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir