Hægt á umferð til að verja kríuna

Kríuungarnir eru komnir á stjá í Rifi. Af þeim sökum hafa verið settar niður keilur á báðar akreinir á götuna í efra Rifinu. Ætlunin er að hægja á umferðinni til að draga úr líkum á því að ekið verði á ungana. „Um tímabundna ráðstöfun er að ræða en hún gafst afar vel í fyrra. Eftir að keilurnar voru settar upp þá varð nánast enginn ungi undir bíl á þessu svæði,“ segir á Facebook-síðu Snæfellsbæjar.

Í gegnum tíðina hefur ýmislegt verið reynt til að koma í veg fyrir að ekið sé á kríuunga í Rifi. Árið 2016 var vegurinn milli Rifs og Hellissands til að mynda málaður í þremur litum. Ætlunin var að kanna hvort ungarnir færu síður út á veginn eftir því í hvaða lit hann væri. Niðurstöður þeirrar tilraunar þóttu hins vegar ekki nægilega marktækar til að slíkt væri endurtekið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir