Gírolían verður gul á litinn þegar hún kemst í snertingu við sjóinn. Lekinn var því nokkuð áberandi. Ljósm. glh.

Gírolía lak í Akraneshöfn

Óhapp varð í Akraneshöfn á þriðjudaginn þegar gírolía lak úr togaranum Bjarna Ólafssyni AK og í höfnina. Að sögn Einars Guðmundssonar hafnarvarðar var lán í óláni að Páll Erlingsson var á ferð á bryggjunni um þetta leyti og varð lekans var. Hann fór um borð í Bjarna, tókst að stöðva lekann og lét vita af honum. Skipstjórarnir og bræðurnir Runólfur og Gísli Runólfssynir gerðu síðan Einari hafnarverði viðvart sem hringdi eftir mönnum frá Faxaflóahöfnum sem komu með viðeigandi búnað og hreinsuðu upp olíuna.

Að sögn Einars tókst að loka fyrir nokkuð af olíunni með hulsum áður en henni var dælt upp úr, en ekki alla því hana rak ákaflega hratt út úr höfninni. „Á að giska voru þetta milli 50 og 100 lítrar. Gírolían flýtur ofan á vatninu og verður auk þess gul á litinn þegar hún kemst í snertingu við vatn, svo þetta varð enn meira áberandi en annars,“ segir hann. „Svona lagað gerist sem betur fer mjög sjaldan,“ segir Einar að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir