Samið við ráðgjafa til undirbúnings gagnavers

Niðurstaða fundar Akraneskaupstaðar og Landsvirkjunar sem fram fór nýverið er að Akranes þykir henta mjög vel til að byggja upp hátækni gagnaver. Flutningsnet raforku þykir henta til þess, án þess þó að gengið verði á framtíðar orkuþörf m.a. á Grundartangasvæðinu. Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn.

Hann hefur á liðnum misserum leitt viðræður við Landsnet um væntanlega uppbyggingu og er nú í viðræðum við erlendan ráðgjafa sem sérhæft hefur sig í að finna hentugar staðsetningar fyrir fyrirtæki á heimsvísu sem reisa vilja gagnaver af þessari gerð. Sævar segir að þau gagnaver sem horft sé til flokkist sem hátæknigagnaver en þau krefjast alla jafnan fjölda sérhæfðra starfsmanna. „Það er einkum staðsetningin sem gerir Akranes eftirsóknarvert svæði til uppbyggingar gagnavers. Þar er meðal annars horft til þátta eins og flutningsnets raforku, öryggis með tilliti til eldgosa eða jarðskjálfta og ýmissa fleiri þátta. Gert er ráð fyrir að vinnan með ráðgjafanum hefjist í ágúst og þó skilyrði séu góð þá þurfa margir samverkandi þættir að ganga eftir eigi hátæknigagnaver að rísa við Akranes,“ segir Sævar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir