Slökkviliðsmenn að störfum á við eldsneytisdælurnar. Ljósm. bhs.

Ók af stað með dæluna í stútnum

Liðsmenn í Slökkviliði Borgarbyggðar voru kallaðir út á sjötta tímanum í gærkvöldi vegna olíumengunar við eldsneytisdælur Orkunnar á Brúartorgi í Borgarnesi. Einn viðskiptavinur hafði gleymt að taka dæluna úr stútnum áður en hann ók af stað eftir að hafa dælt olíu á bílinn. „Olíugildrur eru á bílastæðunum við dælurnar og þær tóku við megninu af olíunni sem fór niður. Slökkviliðsmenn komu á staðinn og dreifðu lífrænum hreinsiefnum yfir það sem var á planinu, en þau brjóta niður olíuna. Hreinsiefnin voru látin vinna í smá stund og síðan skolað niður í olíugildrurnar. Þær verða síðan tæmdar,“ segir Bjarni Þorsteinsson slökkviliðsstjóri í samtali við Skessuhorn.

Að sögn Bjarna var ekki lokað fyrir umferð framhjá dælunni alveg um leið og óhappið varð. Því barst aðeins af olíu með bílum sem óku um svæðið þar til slökkvilið kom á vettvang. „Slíkt getur skapað hættu, ekki bara eldhættu heldur líka hálku. Olía og bleyta fer alls ekki saman, heldur verða eins og ísing á götunni. Því þarf að þrífa eins vel og hægt er, kústa og skafa, þannig að engin slikja verði eftir neins staðar,“ segir hann. „En þrifin tókust bara mjög vel til og sex slökkviliðsmenn höfðu lokið við að hreinsa svæðið rúmum tveimur klukkustundum eftir að útkallið barst,“ segir Bjarni að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir