Höfði á Akranesi.

Úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Heilbrigðisráðuneytið hefur úthlutað rúmum 400 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til uppbyggingar og endurbóta á hjúkrunarheimilum á landinu. Af einstökum framlögum rennur stærsta fjárhæðin til viðbyggingar eldhúss og búnaðar á Hrafnistu, en þar stendur til að framleiða mat fyrir íbúa allra Hrafnistuheimilanna. Sömuleiðis fara framlög til endurnýjunar búnaðar í eldhúsum Eirar og hjá Öldrunarheimilum Akureyrar, samanlagt tæpar 200 milljónir króna. Á Vesturland renna samtals 65 milljónir króna. Langstærstur hluti þeirrar upphæðar er til Höfða, dvalar- og hjúkrunarheimilis á Akranesi, eða 60 milljónir sem verja á til að breyta fjölbýli í einbýli. Reykhólahreppur fær 1,6 milljónir til að skipta út lyftu í Barmahlíð. Loks renna 3,5 milljónir til að breyta aðgengi og hreinlætisaðstöðu í Fellaskjóli í Grundarfirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir