Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kristín S. Hjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, eftir undirritun samkomulagsins. Ljósm. Stjórnarráðið.

Samið um kaup og rekstur sjúkrabíla

Þegar í stað verða keyptir 25 nýir bílar

Samkomulag hefur náðst milli Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins um framlengingu á samningi um kaup og rekstur sjúkrabifreiða. Þegar verður ráðist í kaup 25 nýrra sjúkrabíla samkvæmt útboði sem nú stendur yfir. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra staðfesti samkomulagið við undirritun þess í dag.

Rauði krossinn mun áfram annast rekstur sjúkrabíla, viðhald og innkaup gegn árlegu framlagi af hálfu ríkisins. Eldri samningur rann út í lok ársins 2015. Engir nýjar sjúkrabílar hafa verið keyptir í flotann frá þeim tíma.

Samkomulagið sem undirritað var í dag gildir til ársloka 2022. Þegar verður ráðist í að kaupa 25 nýja sjúkrabíla samkvæmt yfirstandandi útboði. Þess er vænst að fyrstu nýju bílarnir verði teknir í notkun á næsta ári. Reiknað er með því að stærstur hluti sjúkrabílaflota landsins verði endurnýjaður á samningstímanum, að því er fram kemur á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Svandís Svararsdóttir heilbrigðisráðherra segir ánægjulegt að samkomulagið hafi verið endurnýjað. „Rauði krossinn hefur sinnt þessu mikilvæga verkefni af fagmennsku og alúð allt frá því að fyrsti sjúkrabíllinn kom til landsins. Það er ánægjulegt að samstarf okkar við félagið haldi áfram. Af hálfu ríkisins hefur verið lögð áhersla á að tryggja snurðulausan rekstur og ábyrga meðferð fjármuna til lengri tíma. Öllum ágreiningi hefur verið ýtt til hliðar og hagsmunir almennings og heilbrigðiskerfisins settir í forgang,“ segir Svandís.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi og María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, lýstu jafnframt yfir ánægju sinni með endurnýjun samkomulagsins og lýstu tilhlökkun fyrir komandi tíð og þeim verkefnum sem framundan eru.

 

Betur má ef duga skal

Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, hefur ítrekað vakið athygli á bágri stöðu sjúkrabílaflotans í landinu undanfarin ár. Hann kveðst ánægður að heyra að samkomulag hafi náðst og 25 bílar séu væntanlegir en segir að gera verði enn betur til að ástand sjúkrabílaflotans geti talist viðunandi.

„Ég gleðst yfir því að komin sé lending í þetta mál, sem búið er að dragast algjörlega úr hömlu svo ófremdarástand hefur skapast í sjúkrabílamálum,“ segir Gísli í samtali við Skessuhorn.

„Það er til bóta að fá 25 bíla strax en á landsvísu vantar okkur milli 40 og 50 bíla þegar í stað til að ástandið geti talist viðunandi. Við hér á HVE þurfum sex bíla strax til að komast yfir versta hjallann hvað varðar fyrstu forgangsbíla, það er að segja þá bíla sem alltaf eru í fyrstu línu sem kallað er, best búnu og bestu bílarnir sem notaðir eru í forgangsverkefni,“ bætir hann við.

„Engu að síður er þetta ánægjuleg lending að samið hafi verið áfram við Rauða krossinn og þessu óvissuástandi eytt,“ segir Gísli Björnsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir