Dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni

Maður var í Héraðsdómi Vesturlands í lok júní dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar auk greiðslu miskabóta fyrir kynferðisbrot gegn barni, sem og brot gegn áfengis- og barnaverndarlögum.

Maðurinn var ákærður fyrir nauðgun, kynferðisbrot gegn barni, brot gegn áfengis- og barnaverndarlögum með því að hafa afhent 13 ára gamalli stúlku áfengi og fíkniefni og haft við hana samræði og síðan látið hana hafa við sig munnmök. Þannig hafi maðurinn beitt hana ofbeldi og nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs og þroskamunar, sem og traust hennar og trúnað til hans sem fyrrum þjálfara hennar. Á sama tíma tók hann af henni tvær kynferðislegar hreyfimyndir á síma sinn. Brotin áttu sér stað síðasta sumar, þegar maðurinn var 25 ára gamall en stúlkan 13 ára.

Maðurinn viðurkenndi að hafa haft samfarir við stúlkuna. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa vitað að stúlkan væri yngri en 15 ára og hélt því auk þess fram að samræðið hafi verið með samþykki beggja. Dómurinn mat framburð stúlkunnar í alla staði trúverðugan. Hann væri auk þess studdur af framburði móður hennar og föður, sem hafi í tvígang beðið manninn að hætta að umgangast stúlkuna í aðdraganda brotanna, eins og ákærði viðurkenndi. Ákærði kannaðist einnig við að hafa þjálfað stúlkuna um skeið í hópi þar sem hefðu verið börn upp í 14 ára aldur. Dómnum þótti því hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið kunnugt um aldur stúlkunnar, eða í það minnsta vitað full vel að hún væri yngri en 15 ára gömul. Maðurinn var því fundinn sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn barni, sem og að hafa tekið af því myndbönd.

Dómnum þótti hins vegar ekki sannað að maðurinn hefði gefið stúlkunni fíkniefni, þrátt fyrir að framburður hennar þar að lútandi hafi þótt trúverðugur í sjálfu sér. Maðurinn viðurkenndi hins vegar að hafa gefið henni áfengi og var sakfelldur fyrir það.

Manninum var gert að sæta fangelsi í þrjú ár og greiða brotaþola 1,2 milljónir króna í miskabætur með vöxtum. Honum var sömuleiðis gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, þóknun réttargæslumanns brotaþola og allan útlagðan kostnað ákæruvaldsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir