Hér brunar vinnuflokkurinn úr hlaði á Lækjarkoti eftir að hafa reynt að innheimta þrjár milljónir króna fyrir malbikun sem ekki hafði verið beðið um eða samið um viðskipti. Ljósm. te.

Varað við erlendum verktökum sem flakka um og bjóða malbikun heimreiða

Varað er við flokki erlendra verktaka sem ekur þessa dagana um sveitir í Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit og býður malbikun á heimreiðum og afleggjurum. Forsendur fyrir vinnu þeirra og viðskiptum eru í besta falli vafasamar. Á mánudaginn í þessari viku kom fulltrúi þeirra heim á bæ í Lækjarkoti, lögbýli skammt ofan við Borgarnes. Hjónin Trausti Eiríksson vélaverkfræðingur og Ása Ólafsdóttir reka þar fyrirtæki sín. Trausti lýsir því í samtali við blaðamann Skessuhorns að erlendir menn hafi komið og hitt konu sína að máli skömmu fyrir hádegi á mánudaginn. Sjálfur hafði hann ekki verið á svæðinu þegar það gerðist. „Hér var bankað uppá og konan var ein heima í húsinu. Á hlaðinu stóð lágvaxinn, þrekinn og brúneygður maður sem talaði ekki sérlega góða ensku. Sagðist hann vera með afgang af olíumöl sem hann þyrfti að fá að losna við. Konan mín skyldi það sem svo að hún væri að gera manninum greiða að leyfa honum að henda þessu niður einhversstaðar og fannst ekki slæmt að fá smá olíumöl á hlaðið framan við sumarhúsin sem þau leigja út. Hugsaði hún svo ekki meira út í það,“ lýsir Trausti. „Svo leið dagurinn og seinnipartinn koma þessir menn svo heim á hlað hjá okkur til að rukka! Þá voru þeir búnir að leggja eitt lag af olíumöl yfir allan afleggjarann hingað heim til okkar, sem er um 900 metra langur, og vildu fá greitt. Þrjár milljónir króna. Ef það yrði ekki greitt samdægurs hækkaði reikningurinn í sex milljónir!“

Trausta fannst gamanið hafa kárnað verulega enda sú gerð af viðskiptum sem hann kannast ekki við. Hann segir að þessi erlendi verktaki hafi tilkynnt sér að gangverð á fermetra af yfirlagi væri 5000 krónur, en hann fengi fermetrann á 3000 krónur, sagðist koma síðar með til þeirra eða senda reikning, alls ekki væri um svarta vinnu að ræða. „Þegar verktakinn kemur síðdegis til að rukka, tilkynnir hann mér að þetta svokallaða „leftover“ efni sé komið á allan afleggjarann. Ég get náttúrlega ekki annað en mótmælt, enda hef ég alls ekki beðið um þessa þjónustu og afleggjarinn auk þess á forræði Vegagerðarinnar. Þá byrjar maðurinn að þrasa við mig á sinni takmörkuðu ensku. Til liðs við hann kemur svo starfsmaður á hans vegum sem kveðst vera Skoti. Reynir sá að miðla málum og útskýrir að þeir hafi komið með þetta rándýra efni frá Reykjavík, nokkrir á bíl. Á endanum hafi mennirnir hins vegar ekið brott, hreint ekki ánægðir, með öll sín tæki.

Trausti segir að nú sé heimreiðin að Lækjarkoti lögð afar ósléttu bundnu malbiki, enda hafi vegurinn ekki verið heflaður eða sléttaður áður en slitlaginu var komið á hann. Hann kveðst umsvifalaust hafa haft samband við lögræðing sinn og mun í dag kæra málið til Lögreglunnar á Vesturlandi. „Þetta er náttúrlega alveg galin framkoma, hvernig sem á það er litið. Afleggjarinn, utan síðustu hundrað metranna er á forræði Vegagerðarinnar sem sér um viðhald hans. Ég sé ástæðu til að vara við þessum vinnuflokki. Hér eru menn á ferð sem reyna augljóslega á hæpnum forsendum að plata viðskipti inn á fólk. Ekkert annað en lögreglumál í mínum huga,“ segir Trausti.

Skessuhorn hefur heimildir fyrir því að þessi sami vinnuflokkur hafi nú í vikunni verið á ferðinni á fleiri bæjum í Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit og boðið fram þjónustu sína. Vinnuflokkur þessi kom til landsins í vor og hefur verið að störfum á Suðurlandi, en virðist nú hafa fært sig um set á Vesturland.

Líkar þetta

Fleiri fréttir