Hnúfubakar á Flákanum á Breiðafirði í dag. Ljósm. af.

Sést hefur til steypireyða á Flákanum

Töluvert margir hvalir hafa verið á ferðinni á Flákanum svokallaða á Breiðafirði undanfarið, bæði hnúfubakar en einnig steypireyðar. Meðfylgjand mynd tók Alfons Finnsson, fréttaritari Skessuhorns og sjómaður, laust eftir kl. 14:00 á miðvikudag. Hann var þá á skaki í fylgd hnúfubaka á Flákakantinum, um 13 sjómílur norður af Ólafsvík. „Þeir eru búnir að vera í kringum bátinn hjá mér síðan í morgun. Ég hef ekki náð myndum af þeim fyrr en núna, þeir stungu sér alltaf í kaf þegar ég dró upp myndavélina,“ segir Alfons í samtali við Skesshorn.

Steypireyður með kálf

Utan hnúfubakanna hefur reglulega sést til steypireyða á svæðinu undanfarið, þar af eins kálfs. Gísli Ólafsson hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Láki Tours segir slíkt afar sjaldgæft. „Það er ekki oft sem steypireyðar sjást með kálfa, en við sjáum þær reyndar ekki mikið á þessu svæði yfirleitt,“ segir Gísli í samtali við Skessuhorn. „Ég hef ekki séð þessa hvali hérna í dag, en fullt af hnúfubaki. Undanfarnar tvær vikur höfum við hins vegar reglulega séð alveg upp í fjórar steypireyðar, þar af eina með kálf. Þær eru sjaldgæf sjón hér um slóðir en eru hérna að elta svifið sem þær lifa á. Það er nefnilega svo merkilegt að steypireyðurin er stærsta skepnan sem nokkurn tímann hefur lifað á jörðinni en hún étur minnstu ögnina í sjónum,“ segir Gísli að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir