Á síðustu áratugum 19. aldar fluttu fjölmargir Íslendingar til Kanada eins og alkunna er. Flesta rak nauður til, vonin um betra líf í nýrri heimsálfu togaði þá vestur um haf. Einn þeirra sem heimdraganum hleypti á þessum árum var maður að nafni Kristján Fjeldsted. Kristján var fæddur árið 1866, sonur Andrésar Fjeldsted, bónda á Hvítárvöllum og Sesselju Kristjánsdóttur. Hann var því bróðir Sigurðar, síðar bónda í Ferjukoti og Andrésar augnlæknis. Brotthvarf Kristjáns frá Íslandi var reyndar með nokkrum ólíkindum því árið 1887 mun hann hafa fylgt hrossafarmi til Liverpool en ekki snúið aftur heim. Ekki er ljóst af heimildum hvað réði því að Kristján kaus að snúa baki við ættjörð sinni en svo mikið er víst að ekki hefur það verið vegna fátæktar, því Hvítárvellir voru vildarjörð á þeirra tíma mælikvarða, m.a. vegna hlunninda af laxveiði. Orðrómur um að Kristján hafi verið að flýja kvonfang sem honum var ætlað, mun reyndar hafa verið á kreiki, en sannleiksgildi hans er í besta falli vafasamt. Heimildum um ævi og starf Kristjáns í Vesturálfu ber reyndar ekki allskostar saman en hér er reynt að styðjast við þær sem áreiðanlegri sýnast. Í Skessuhorni sem kom út í dag rekur Ari Jóhannesson læknir lífsferil Kristjáns í Vesturheimi. Þar gerðist hann meðal annars laganna vörður og þótti harður í horn að taka og trúr sínum verkefnum. Bráðskemmtileg lýsing sem fólk er hvatt til að lesa.