Síðastliðinn sunnudag var haldin kveðjumessa í Stafholtskirkju í Borgarfirði. Hjónin sr. Jón Ásgeir Sigurvinsson og sr. Elínborg Sturludóttir predikuðu og þjónuðu fyrir altari um leið og þau kvöddu söfnuð sinn. Séra Jón Ásgeir hefur þjónað söfnuðum Stafholts, Hvamms og Norðtungu síðasta árið og leysti auk þess séra Þorbjörn Hlyn Árnason af síðasta hálfa árið í Borgarprestakalli. Séra Elínborg þjónaði Stafholtsprestakalli til tíu ára en fór þaðan til starfa sem dómkirkjuprestur. Kirkjan var þétt setin í Stafholti á sunnudaginn og í framhaldi messu fóru kirkjugestir í kaffisamsæti í Munaðarnes. Eins og fram kom í síðasta Skessuhorni hefur séra Brynhildur Óla Elínardóttir verið ráðin sóknarprestur í Stafholtsprestakalli og tók hún við embætti til eins árs 1. júní síðastliðinn.