Fyrstu íbúarnir við Asparskóga 12 og 14 tóku við lyklum. Hér eru þeir ásamt bæjarstjórn Akraness, Vilhjálmi Birgissyni formanni VLFA og forsvarsmönnum Bjargs íbúðafélags. Ljósm. Skessuhorn/ arg.

Bjarg íbúðafélag afhenti í morgun fyrstu íbúðirnar við Asparskóga

Fyrstu leigjendur Bjargs íbúðafélags fengu í morgun afhenta lyklana af íbúðum sínum við Asparskóga 12 og 14 á Akranesi. Allar íbúðirnar í húsunum tveimur verða afhentar í dag í þremur úthlutunum, en samtals eru 22 íbúðir í húsunum tveimur. Þriðja húsið kom til landsins fyrr í mánuðinum, búið er að reisa einingar þess og verður afhent leigjendum síðar í sumar. Einingarnar í fyrri tvö húsin komu til landsins frá Lettlandi 31. mars síðastliðinn. Bjarg íbúðarfélag er á vegum verkalýðsfélaga en um er að ræða leigufélag sem rekið verður án hagnaðarmarkmiða og ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Við afhentingu íbúðanna var bæjarstjórn Akraness viðstödd sem og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri ávarpaði viðstadda og þakkaði öllum þeim sem komu að byggingu húsanna fyrir þetta skref til að tryggja öruggt leiguhúsnæði á Akranesi á viðráðanlegum kjörum. Vilhjálmur sagðist þakklátur fyrir þetta skref og sérstaklega þakklátur Akraneskaupstað fyrir sitt framlag í verkefninu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir