Steinþór Árnason hefur selt Lesbókina Café á Akranesi. Ljósm. úr safni/ kgk

Alltaf spennandi tímar hjá Steinþóri

Veitingamaðurinn Steinþór Árnason hefur selt Lesbókina Café á Akranesi og afhendir reksturinn í lok næsta mánaðar. Þangað til verður reksturinn með óbreyttu sniði en auk þess að reka Lesbókina hefur hann tekið við rekstri á kaffihúsinu Skemmunni á Hvanneyri. Spurður hvernig það hafi komið til að hann ákvað að sækja um rekstur Skemmunnar hlær hann og svarar; „ég er kannski pínu ruglaður. Ég sá þarna gott tækifæri og þegar ég sóttist eftir þessu var ég ekki búinn að selja Lesbókina og sá fyrir mér að reka þetta undir sama hatti.“

Auk kaffihúsareksturs hefur Steinþór keypt Sansa, fyrirtæki á Akranesi sem seldi í hverri viku matarpakka með öllum hráefnum sem til þarf í þrjár máltíðir ásamt uppskriftum fyrir fólk að elda matinn sjálft heima hjá sér. Sansa hefur þó ekki selt matarpakka frá því í mars. „Ég stefni á að byggja á sama fyrirkomulagi í Sansa en leggja meiri áherslu á veisluþjónustu. Ég vonast til að geta opnað strax í haust en það verður að ráðast,“ segir Steinþór. Í Skemmunni á Hvanneyri ætlar Steinþór að halda áfram að bjóða upp á hinn vinsæla vöfflubar og kaffidrykki. „Ég ætla svo að bæta við sölu á vörum úr héraði og verð með ís og allskonar matvörur frá bændum í nágrenninu. Ég mun líka framleiða matvöru í Sansa sem ég keyri daglega á Hvanneyri og sel þar, þá brauð og eitthvað slíkt,“ segir Steinþór. „Það er alltaf eitthvað í gangi hjá mér og alltaf spennandi tímar framundan,“ bætir hann við og hlær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir