„Mikil lyftistöng að fá þennan fjölda í bæinn“

Norðurálsmótið fór fram um síðustu helgi á Akranesi þar sem 1.500 iðkendur í 7. flokki drengja og þúsundir aðstandendur þeirra komu saman í bænum til að taka þátt og fylgjast með mótinu. Mótsgestir fengu sannkallaða rjómablíðu alla mótsdagana. Mótið var sett fyrir hádegi á föstudaginn og hófst með árlegri skrúðgöngu keppenda frá ráðhúsinu við Stillholt. Gengið var sem leið lá í Akraneshöllina þar sem mótið var formlega sett. Skömmu síðar hófst keppni og voru leikir spilaðir í þrjá daga, þar sem ungir og efnilegir fótboltaiðkendur sýndu mikil tilþrif.

„Mótið gekk rosalega vel,“ sagði Sigurður Þór Sigursteinsson, framkvæmdarstjóri KFÍA í samtali við Skessuhorn að móti loknu. „Þetta er stærsta mót hingað til. Hingað komu 224 lið frá 37 félögum allsstaðar af landinu þar sem spilaðir voru 1.120 leikir yfir helgina,“ bætir hann stoltur við.

Sigurður Þór var hæstánægður með samstarf sjálfboðaliða um liðna helgi. „Þetta er fyrsta Norðurálsmótið þar sem ég er framkvæmdastjóri félagsins og það er ótrúlegt að upplifa þetta góða samstarf sem átti sér stað við undirbúning mótsins og meðan á því stóð. Það var frítt í sundlaugina alla helgina, þökk sé Akraneskaupstað. Við vorum í nánu samstarfi við skólana í bænum sem lögðu til húsnæði til gistingar og svo allir þeir dómarar sem mönnuðu þessa 1.120 leiki sem voru spilaðir og foreldrar sem aðstoðuðu með einum eða öðrum hætti eiga hrós skilið. Þetta var bara frábært mót í alla staði og skipulagningin til fyrirmyndar og mikil ánægja með mótið heilt yfir. Fyrir Akraneskaupstað þá er það mikil lyftistöng að fá svona fjölda inn í bæinn sem er ekki einungis á fótboltamóti heldur á þar viðskipti og nýtir þjónustu sem er í boði. Svo skemmir ekki þegar veðrið var eins og það var um helgina, ekkert nema sól og blíða,“ segir framkvæmdarstjórinn að endingu.

Tíðindamenn Skessuhorns ræddu einnig við nokkra foreldra sem voru gestir á mótinu. Þeir voru á einu máli um að öll skipulagning og umgjörð KFÍA í kringum mótið hefði verið til fyrirmyndar. „Þeir eru líka þokkalega vanir hér í fótboltabænum að skipuleggja svona stórviðburði og kunna það vel,“ sagði pappi eins Fjölnisdrengsins, þegar þeir feðgar voru þreyttir en sælir að kaupa nesti fyrir heimferð á sunnudaginn.

Í Skessuhorni sem kom út í dag má sjá úrval mynda sem teknar voru á mótinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira