Ragnheiður Sigurðardóttir og Kolbrún Sandra Hreinsdóttir glíma báðar við veikindi af völdum raka og myglu í atvinnuhúsnæði. Þær segja sögu sína í Skessuhorni í dag. Ljósm. mm.

Alvarleg veikindi vegna myglu og rakaskemmda í atvinnuhúsnæði

Hópur fólks á Akranesi, sem á það sameiginlegt að hafa veikst vegna rakaskemmda og myglu í atvinnuhúsnæði, hefur ritað landlækni bréf. Farið er fram á að landlæknisembættið beiti sér fyrir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu vegna veikinda sem rekja má til sýkts húsnæðis. Hópurinn sér sig knúinn til að fara fram á þetta þar sem hann stendur frammi fyrir ráðaleysi sérfræðinga þegar kemur að veikindum sem rekja má til rakaskemmda í húsum. „Það eru jafnvel til læknar sem væna sjúklinga um ímyndunarveiki. Kerfið er því máttlaust þegar kemur að þessu,“ segja viðmælendur Skessuhorns. Í bréfi þeirra segir meðal annars: „Við eigum það öll sameiginlegt að glíma við veikindi vegna staðfestra rakaskemmda og myglu á vinnustað og höfum leitað til lækna sem búa yfir ólíkri sérfræðiþekkingu í þeirri von að fá leiðbeiningar og aðstoð við að ná bata. Það hefur oftast, því miður, borið lítinn árangur,“ segir í upphafi bréfsins. Þá er bent á að mygla sé hið nýja asbest og beri að meðhöndla sem slíkt.

Í Skessuhorni sem kom út í dag er rætt við tvær konur sem eiga það sameiginlegt að hafa veikst alvarlega af völdum rakaskemmda og myglu í húsnæði sem þær störfuðu í. Vilja þær upplýsa almenning um veikindin, lýsa sjúkdómasögu sinni. Veikindi af völdum húsmyglu eru alvarleg og vilja þær segja sögu sína ekki síst til að aðrir geti áttað sig á einkennunum lendi þeir í þeirri aðstöðu að vinna í sýktu húsnæði. Sjá nánar í Skessuhorni í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir