Frá sjósetningu Bárðar SH síðastliðinn fimmtudag. Ljósm. Bredgaard Bådeværft.

Búið að sjósetja nýja Bárð

Nýr Bárður SH var sjósettur í Danmörku fimmtudaginn 6. júní en hann hefur verið í smíðum hjá Bredgaard Bådeværft í Rødbyhavn þar í landi. Pétur Pétursson útgerðarmaður var viðstaddur sjósetninguna ásamt eiginkonu sinni Lovísu Sævarsdóttur og Pétri syni þeirra.

Nýr Bárður er 26,9 metra langur og sjö metra breiður með 2,5 djúpristu. „Mér er sagt að þetta sé stærsti trefjaplastbáturinn sem hefur verið smíðaður fyrir íslenska útgerð og ég held að það sé alveg hárrétt,“ segir Pétur eldri í samtali við Skessuhorn. Hann segir næstu verkefni vera frágang á mastri og vindum og ýmsum rafmagnsbúnaði. Síðan er áætlað er að báturinn verði tilbúinn til prufukeyrslu um mánaðamótin. „Þá taka við væntanlega um það bil fjögurra daga prófanir á bátnum. Þegar búið verður að hallaprófa bátinn og prufukeyra fær hann haffærnisskírteini,“ segir hann.

Að svo búnu verður nýja Bárði siglt til Hanstholm á Norður-Jótlandi þar sem vinnslubúnaði verður komið fyrir á dekki bátsins. „Það verk kemur til með að taka nokkra daga, kannski tíu til fimmtán daga. Ef allt gengur vel þá gera áætlarnir ráð fyrir að báturinn verði kominn heim til Ólafsvíkur í endann júlí,“ segir Pétur Pétursson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir