Klettsfoss, neðsti veiðistaðurinn í Reykjadalsá. Skammt neðan við Klett sameinast Reykjadalsá og Flókadalsá og renna saman út í Hvítá.

Tekist á um lögmæti samnings um leigu Reykjadalsár

Stjórn Veiðifélags Reykjadalsár í Borgarfirði auglýsti nýverið til sölu veiðileyfi í ánni í sumar. Þar er veitt á tvær stangir á tímabilinu 20. júní til 30. september. Sú óvenjulega staða er nú komin upp að tveir aðilar eru að selja sömu veiðileyfin; annars vegar landeigendur í Veiðifélagi Reykjadalsár en hins vegar Stangveiðifélag Keflavíkur. Komin er upp deila milli þessara aðila um lögmæti samnings um veiðirétt í ánni. Stangveiðifélag Keflavíkur er samkvæmt heimildum Skessuhorns búið að selja flestalla veiðidaga í ánni í sumar, en stjórn þess hefur átt í deilum við stjórn veiðifélags árinnar um lögmæti fimm ára samnings um veiðirétt fyrir árin 2018-2022. Ástæðu deilunnar má rekja til þess að tveir fyrrum stjórnarmenn í veiðifélaginu gerðu drög að samningi um leigu árinnar til fimm ára vorið 2018 og lögðu fyrir fund í veiðifélaginu. Samningsdrögunum var hafnað og öðlaðist hann því aldrei lögformlegt gildi. Málið kom til kasta Fiskistofu sem úrskurðaði í málinu 15. janúar 2019. Felldi stofnunin úr gildi ákvörðun um ráðstöfun á veiði í Reykjadalsá og taldi samninginn ólögmætan vegna formgalla við gerð hans og að ekki hafi verið rétt staðið að boðun félagsfundar í veiðifélaginu.

Stangveiðifélag Keflavíkur unir ekki þessari ákvörðun Fiskistofu og Veiðifélags Reykjadalsár og er nú búið að selja flestalla veiðidaga í ánni, annað árið í röð. Þrátt fyrir að deilurnar hafi komið upp í fyrravor annaðist SVFK sölu veiðileyfa í fyrrasumar en landeigendur ætla samkvæmt heimildum Skessuhorns ekki undir neinum kringumstæðum að láta það endurtaka sig í ár og hafa því auglýst milliliðalaust veiðileyfi í ánni til sölu. Stangveiðifélag Keflavíkur mun leggja fram kröfu um lögbann á sölu veiðileyfa hjá Veiðifélagi Reykjadalsár. Verður krafan tekin fyrir í Héraðsdómi Vesturlands í dag, miðvikudag. Félagið hyggst jafnframt kæra niðurstöðu Fiskistofu í málinu þar sem það telur stofnunina hafa farið út fyrir valdsvið sitt.

Reykjadalsá hefur nær alltaf verið skilgreind sem síðsumarsá, tæplega 40 kílómetra dragá sem rennur niður Hálsasveit og Reykholtsdal frá upptökum sínum í Okinu. Þá sameinast Rauðsgil meginfarvegi árinnar. Vatnsstaða árinnar hefur alla tíð verið mjög háð úrkomu og snjó í fjöllum. Veiði í fyrrasumar var með besta móti í Reykjadalsá enda var mikil úrkoma í sumarbyrjun, góð vatnsstaða og gekk laxinn því snemma í ána. Reykjadalsá er hins vegar víðast hvar stígvélafær þegar þessi orð eru rituð, þriðjudaginn 11. júní 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir