Fyrir miðri mynd má sjá hvar skipinu var siglt utan í brygguna. Ljósm. sá.

Skemmtiferðaskipi var siglt utan í Stykkið

Skemmtiferðaskipið Ocean Diamond rakst harkalega utan í Stykkið, trébryggjuna í Stykkishólmshöfn, þegar það lagðist að bryggju á laugardagsmorgun. Að sögn Hrannars Péturssonar hafnarvarðar átti óhappið sér stað kl. 6:20 að morgni. Hann kveðst ekki geta sagt til um tildrög óhappsins. Allar aðstæður hafi verið mjög góðar og menn viti hreinlega ekki hvers vegna þetta gerðist. Sjóslysanefnd mun fá málið til rannsóknar.

Nokkrar skemmdir urðu á bryggjunni en að sögn hafnarvarðarins eru þær ekki jafn miklar og talið var í fyrstu og þær líta út fyrir að vera. „Stálbitar yst á bryggjunni þar sem skipið sigldi á hana eru beyglaðir og þarf að skipta um þá. Síðan þarf að skipta um einn polla sem beyglaðist,“ segir Hrannar sem áætlar að viðgerðin á pollanum verði minniháttar. „Timburklæðningin fór af á fimm til sex metra kafla þar sem skipið fór utan í bryggjuna. Við eigum til eitthvað af timbri til að gera við það,“ segir hann. „Ég vona að hægt verði að kippa þessu öllu í lag til bráðabirgða á skömmum tíma og síðan gera endanlega við þetta eftir sumarið,“ segir hafnarvörðurinn. „Burðurinn í bryggjunni virðist ekki hafa skemmst heldur virðast skemmdirnar vera bundnar við þennan eina polla og svæðið í kringum hann þar sem skipið sigldi á bryggjuna,“ segir hann. „Engu að síður er dálítið erfitt að átta sig á endanlegu umfangi skemmdanna. Við munum kalla til sérfræðing frá siglingasviði Vegagerðarinnar til að koma og meta skemmdirnar endanlega. Vonandi getum við fengið hann vestur eins fljótt og mögulegt er til meta endanlegt umfang. En eins og þetta blasir við okkur þá virðast skemmdirnar ekki jafn slæmar og þær líta út fyrir að vera,“ segir Hrannar Pétursson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir