Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Umhverfisvottun Snæfellsness, með höfnina í Stykkishólmi í baksýn. Ljósm. arg

„Raunveruleg auðlind okkar í umhverfismálum er fólkið“

Guðrún Magnea Magnúsdóttir ólst upp í Stykkishólmi, lauk námi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði og hélt svo í höfuðborgina þar sem hún lærði mannfræði við Háskóla Íslands. Að því loknu var Danmörk næsti viðkomustaður þar sem Guðrún Magnea lauk mastersnámi í þróunarfræði og alþjóðatengslum. Fyrir nærri tveimur árum flutti hún aftur heim í Hólminn þar sem hún tók við starfi verkefnastjóra hjá Umhverfisvottun Snæfellsness. „Það er alveg merkilegt að þegar maður var yngri gat maður varla beðið eftir því að komast úr Hólminum og flytja í bæinn eða eitthvert annað. En svo er maður bara kominn hingað aftur og vill helst hvergi annars staðar vera,“ segir Guðrún Magnea og hlær. „Mér og manninum mínum líður mjög vel hér í Hólminum en það hefur líka mikið breyst á Snæfellsnesi frá því við vorum krakkar, og við höfum líka breyst,“ segir hún en maðurinn hennar, Snæbjörn Aðalsteinsson, er sjálfur uppalinn í Ólafsvík. „Það má segja að við hittumst á miðri leið, en við kynntumst í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði,“ segir hún og brosir.

Umhverfisvottunarverkefni Snæfellsness var fyrst myndað af sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi auk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í þeim tilgangi að gera betur í sínum störfum til að standa vörð um umhverfið. Hófst þá mikil vinna til að fá umhverfisvottun EarthCheck samtakana en til þess þurftu sveitarfélögin að sýna fram á að vinna markvisst að sjálfbærari starfsháttum. Það var svo 8. júní 2008 sem Snæfellsnes hlaut umhverfisvottunina og voru þá fyrstu sveitarfélögin í Evrópu og þau fjórðu í heiminum til að hljóta slíka vottun. „Þetta er ekki svona vottun sem þú getur fengið og hefur svo bara alltaf eftir það. Vottunin er endurskoðuð á hverju ári svo það þarf stöðugt að sýna fram á úrbætur,“ segir Guðrún Magnea. Snæfellsnes hefur haldið sinni vottun og vinna sveitarfélögin að því að svo verði áfram og kemur þar starf Guðrúnar Magneu inn. „Ég held í rauninni utan um framkvæmd vottunarverkefnisins undir umsjón Náttúrustofu Vesturlands; söfnun gagna, mat á frammistöðu, úttektir og úrvinnslu úrbóta. Allt að sjálfsögðu í samstarfi við sveitarfélögin. Auk þess veiti ég ráðgjöf og fræðslu um umhverfismál og verkefnið almennt. Eftir hverja úttekt í tengslum við vottunina fáum við athugasemdir um hvaða úrbætur við gætum gert og þá vinn ég með sveitarfélögunum út frá því. Ég fer yfir hvernig mætti bæta þessa ákveðnu hluti. Ef við tökum sem dæmi að sorpið sem við sendum í urðun hefur aukist á milli ára og fer yfir ákveðnar lágmarkskröfur þá verðum við að bregðast við og finna leiðir til að draga aftur úr sorpmagni til urðunar. Við, ég og sveitarfélögin, vinnum mikið með tölur í þessu sambandi. Við horfum helst í tölur um úrgang, bæði til endurvinnslu og urðunar og tölur sem sýna orku- og vatnsnotkun. Svo eru aðrar tölur sem tengjast bara sveitarfélaginu eins og tölur um innkaupa á hreinsivörum og pappír. Það er markmið sveitarfélaganna að draga úr notkun og líka að auka hlutfall umhverfismerktra vara,“ útskýrir Guðrún Magnea.

Sjá nánar viðtal við Guðrúnu Magneu í Skessuhorni sem kom út í dag

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Spíttbústaður

Umsjónarmenn sumarbústaðar í Hvalfirði höfðu samband við Lögregluna á Vesturlandi í vikunni sem leið. Bústaðurinn er leigður út til skamms... Lesa meira