Jill Syrstad og Írena Rut Jónsdóttir standa vaktina í Guðlaugu. Ljósm. mm.

Ellefu þúsund hafa farið í Guðlaugu frá opnun

Mjög mikil aðsókn var í heita pottinn Guðlaugu við Langasand á Akranesi um hvítasunnuhelgina, en á annað þúsund manns nutu þess þá að fara í laugina og sjóinn og börn voru að leik á Langasandi. Mest voru þetta Íslendingar á ferðinni, fjölmargir af höfuðborgarsvæðinu og frá Reykjanesi að sögn starfsfólks. Þær Jill Syrstad og Írena Rut Jónsdóttir voru á vaktinni við laugarhúsið þegar blaðamaður kom þar við á öðrum degi Hvítasunnu. Þær sögðu nánast hafa verið fullt í lauginni þann dag og að á laugardeginum hefðu gestir til dæmis verið 400. Þær sinna hefðbundinni laugargæslu, en hægt er að fylgjast með gestum í gegnum tvær myndavélar en þriðja vélin er væntanleg. Þá þarf að leiðbeina börnum svo sem um hvar megi ekki klifra en einnig þarf að leiðbeina fólki varðandi sjósund, til dæmis um að vera ekki of lengi í sjónum í einu. Auk þess selja þær matvæli í vaktskúrnum, en nýlega var samið við Matarbúr Kaju um vörur sem þar eru boðnar til sölu.

Guðlaug var opnuð með viðhöfn 8. desember á liðnu ári. Þær Jill og Írena Rut segja að gestafjöldinn í laugina sé frá þeim degi kominn í ellefu þúsund. Frítt er í Guðlaugu og er ekki ætlun að innheimta gjald þetta árið að minnsta kosti.

Gestir í Guðlaugu á öðrum degi hvítasunnu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir