Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi.

„Viðbragðsaðilar að setja sig í stellingar“

Eins og áður hefur verið greint frá lýsti ríkislögreglustjóri á þriðjudag, í samráði við lögreglustjórann á Vesturlandi, yfir óvissustigi almannavarna á Vesturlandi vegna hættu á gróðureldum. Þá var sömuleiðis virkjuð viðbragðsáætlun vegna hættu á gróðureldum í Skorradal. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.

„Að lýsa yfir óvissuástandi þýðir í rauninni að allir viðbragðsaðilar eru búnir að setja sig í stellingar,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi, í samtali við Skessuhorn. Hann er jafnframt formaður almannavarnanefndar landshlutans. „Óvissustig vísar til þess að menn vita ekki hvað gerist næst, en aðstæður gefa vísbendingar um að eitthvað gæti hugsanlega gerst sem ógnar heilsu og öryggi fólks, umhverfi og byggðum,“ segir hann.

„Óvissustigið nær til alls landshlutans. Hér á Vesturlandi hefur verið mjög þurrt undanfarnar vikur og ástæða til að menn séu á tánum,“ bætir hann við. „Sérstök áhersla er lögð á Skorradal vegna legu hans, fjölda bústaða og einnig hvar þeir eru staðsettir. Þar er orðið mjög þurrt og hefur ekki rignt að mér skilst síðan 10. maí. Þess vegna hefur verið virkjuð viðbragðsáætlun sem nær til þess svæðis. Þá fara viðbragðsaðilar að undirbúa hvað skuli gera ef eldur kemur upp,“ segir lögreglustjórinn. „Flóttaleiðum í Skorradal er mjög ábótavant, það verður bara að segjast. Ef upp kemur eldur norðan vatnsins til dæmis eru ekki nema tvær flóttaleiðir út úr dalnum. Auk þess er ekki hringtenging vegar austan við vatnið, sem væri æskilegt. Vegarslóði er frá Fitjum að Uxahryggjavegi, en hann er ekki fær á sumrin nema á jeppum. Vegirnir í dalnum sjálfum þyrftu síðan að vera betri. Ef upp kemur hættuástand vega gróðurelda snýst allt um að bjarga, koma því greiðlega og örugglega út af svæðinu,“ segir Úlfar og bætir því við að aðgengi að Skorradalsvatni til slökkvistarfs í dalnum sé ábótavant. „Það er nóg af vatni í Skorradal, það vantar ekki. En það er ekki mjög víða hægt að komast greiðlega að því. Slökkvilið á erfitt með að athafna sig,“ segir hann.

Gróður í sumarhúsabyggðum á Vesturlandi öllu er víða orðinn mjög þurr og óvissuástandið nær til landshlutans í heild. „Í sumarhúsabyggðum er gróður almennt mjög þéttur og vegir víðast hvar mjög þröngir. Um allt Vesturland eru viðbragðsaðilar því í viðbragðsstöðu. Engu að síður er ástandið talið sérstaklega víðsjárvert í Skorradal,“ segir Úlfar. En hvað er hægt að gera til að bregðast við þessu? „Að beiðni slökkviliðsstjóra hafa verið send smáskilaboð með varnaðarorðum á alla farsíma sem staðsettir eru í Skorradal. Slík skilaboð hafa verið send daglega undanfarna daga. Þar er verið að brýna fyrir fólki að gæta ýtrustu varúðar við meðferð elds. Þetta er ekki fullkomin aðferð en hefur engu að síður gefist vel, er svona nútíma útgáfa þess að senda dreifimiða í hús,“ segir hann. „Í kjölfar þess að óvissuástandi var lýst yfir og viðbragðsáætlun virkjuð fyrir Skorradal er einnig fjallað um málið í fjölmiðlum. Það vekur fólk til umhugsunar um ástandið og er mjög mikilvægt.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir