Ferðamenn mynda Lóndranga á Snæfellsnesi. Ljósm. úr safni/ glh.

Brottförum fækkar

Brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli voru um 126 þúsund í maí, eða um 39 þúsund færri en í sama mánuði í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkunin milli ára nemur 23,6%.

„Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum, í janúar fækkaði brottförum um 5,8%, í febrúar um 6,9%, í mars um 1,7% og í apríl um 18,5%,“ segir á vef Ferðamálastofu.

Flestir sem flugu frá landinu í maí voru Bandaríkjamenn, eða um fjórðungur brottfara og hefur þeim fækkað um 38,7% milli ára. Brottfarir í maí í ár eru álíka margar og þær voru í sama mánuði árið 2016.

Frá ármótum hafa 705 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll, sem er 11,2% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir