Dúx MB á leið í lögfræði

Föstudaginn 31. maí síðastliðinn útskrifaðist Lára Karitas Jóhannesdóttir af félagsfræðabraut við Menntaskóla Borgarfjarðar með 9,44 í lokaeinkunn, sem var hæsta meðaleinkunn á stúdentsprófi. Lára Karitas segist ekki geta deilt neinu leyndarmáli um hvernig hægt sé að ná svo góðum árangri en segir að námið hafi alltaf legið þokkalega vel fyrir henni.

„Mér þótti námið skemmtilegt og ég held að það sé lykillinn. Þegar manni þykir skemmtilegt það sem maður er að gera er það auðveldara og maður er duglegri. Ég held að það eina sem skipti máli sé að vera vel undirbúin fyrir skólann og gera öll verkefni, sama hversu lítil eða stór þau eru,“ segir Lára þegar Skessuhorn heyrði í henni hljóðið.

Samhliða námi hefur hún unnið í hlutastarfi, fyrst í Bónus í Borgarnesi og svo í Nettó. Aðspurð segist hún ekki hafa stundað neinar tómstundir sérstaklega en stundum farið í ræktina. „Það er gott að fara stundum í ræktina til að hreinsa hugann, hlaupa smávegis og fá útrás,“ segir hún.

Eftir útskriftina var haldin útskriftarveisla í tilefni dagsins. „Ég fagnaði með lítilli veislu fyrir fjölskylduna. Svo er ég að fara í vikuferð með fjölskyldunni minni til Almeria“ segir hún. Í sumar ætlar hún að vinna í Brákarhlíð í Borgarnesi, en hvað tekur við í haust? „Ég er búin að skrá mig í lögfræði við Háskólann á Akureyri næsta haust. Ég ætla í fjarnám og búa áfram í Borgarnesi,“ svarar hún. „Ég valdi lögfræði því ég veit ekki alveg hvað mig langar að verða og ég tel lögfræði vera góðan grunn fyrir margt sem höfðar til mín. Ég vil fara strax í nám og ætla að byrja á þessu og sjá til hvað ég byggi svo ofan á þetta,“ segir hún að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.