Ljósm. úr safni.

Akraneskaupstaðar mun lækka fasteignaskatta

Eins og greint var frá á vef Skessuhorns í gær hækkar fasteignamat hvergi meira en á Akranesi, þar sem heildarfasteignamat hækkar um 19,1% en fasteignamat íbúða um 21,8%.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að Akraneskaupstaður muni lækka álagningaprósentu fasteignaskatta til að tryggja að staðið verði við yfirlýsingu sem gefin var út við gerð lífskjarasamninganna svokölluðu. Þar var kveðið á um að gjöld íbúa verði ekki hækkuð meira en sem nemur 2,5 prósentum. „Ég er búinn að vera bæjarstjóri í tvö ár en á þeim tíma hafa bæjarstjórnir Akraneskaupstaðar lækkað álagsprósentu heimila um 20,66% og fyrirtækja um 4,21% samhliða hækkandi fasteignamati. Við lofum að það verður framhald á þessu um næstu áramót. Endanleg útfærsla mun liggja fyrir í desember þegar fjárhagsáætlun ársins 2020 verður samþykkt,“ segir Sævar í samtali við Skessuhorn.

Hann segir mikla ásókn í lóðir og fasteignir á Akranesi eina af helstu skýringum þess að fasteignamat Þjóðskrár hefur hækkað jafn mikið og raun ber vitni. „Við erum bæjarfélag í sókn og þess vegna er mikilvægt að við sjáum að þeir sem ákveða að byggja fái eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir eignir sínar. Á sama tíma erum við engu að síður með 20-40% lægra verð á íbúðum hér á Akranesi en í höfuðborginni. Fyrir 100 fermetra íbúð kemur það um það bil þannig út að fólk borgar 70 þúsund krónum minna í afborganir af lánum á Akranesi af slíkri íbúð en í sambærilegu húsnæði í höfuðborginni,“ segir hann.

Bæjarstjórinn segir enn fremur að gatnagerðargjöld séu eina af stærri skýringum þess að verð á íbúðum á Akranesi sé á bilinu 20-40% lægra en á höfuðborgarsvæðinu. „Við lítum ekki á gatnagerðargjöld sem hagnaðarmyndun hjá kaupstaðnum heldur erum við að selja þau undir kostnaðarverði eins og staðan er í dag. Stefnan er að í framtíðinni verði gatnagerðargjöld í takt við kostnað kaupstaðarins af gatnagerð en ekki til hagnaðarmyndunar, en því er öfugt farið í höfuðborginni,“ segir Sævar Freyr Þráinsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir