Bjartmar Hannesson bóndi á Norðurreykjum í Borgarfirði man ekki jafn gott vor í 44 ára búskapartíð sinni. Ljósm. ks.

Sláttur er hafinn í Borgarfirði

Bjartmar Hannesson bóndi á Norðurreykjum í Hálsasveit sló fyrstu spildu sumarsins í dag, laugardaginn 25. maí, fjóra hektara á túnunum umhverfis bæinn. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er prýðileg spretta á heimatúninu. Grasið þurrkar hann í einn til tvo daga og rúllar síðan. Hann á þó ekki von á að gefa kúnum af þessari fyrstu uppskeru sumarsins strax, ætlar að koma fyrst í þær fyrningunum frá síðasta sumri sem eru rýrari að gæðum. Þá segist hann hafa slegið sama tún 20. júní í fyrra og aldrei fengið þurrk í verkun þeirra heyja enda var síðasta sumar með eindæmum lélegt til heyskapar. Bjartmar kveðst aðspurður reikna með að með sama áframhaldi í sprettu og réttum veðurskilyrðum geti hann hafið slátt af fullum krafti um næstu helgi.

„Ég man ekki eftir svona góðu sprettuvori frá því við Kolla hófum búskap árið 1975. Held að þetta sé besta vor og sumarkoma sem ég og jafnvel mun eldri menn muna. Þegar svona árar fyllast menn bjartsýni. Konan hafði það á orði að þetta væri jafnvel ánægjulegri tíma en sjálf jólin,“ sagði Bjartmar Hannesson léttur í bragði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir