Hildur Karen Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri ÍA var meðal þeirra sem ávörpuðu fundinn.

Mikilvægt að byggja brýr til að ná betur til erlends fólks

„Það er ekki nóg að þýða bæklinga á erlend tungumál til að ná betur til foreldra barna af erlendum uppruna. Betra er að hitta foreldrana, afhenda þeim upplýsingar á máli viðkomandi, ræða við þá um nauðsyn þess að börnin þeirra stundi íþróttir í skipulögðu starfi og fylgja málinu eftir. Við gerðum meira og fengum til liðs við okkur pólska konu til að tala við fólk sem hefur flutt hingað frá Póllandi. Nú hefur iðkendum fjölgað í okkar deild,“ sögðu þær Þórey Guðný Marinósdóttir og Margrét Sigurvinsdóttir. Þessi orð létu þær falla á opnum fundi sem ÍSÍ og UMFÍ héldu síðastliðinn fimmtudag. Þar voru sagðar sögur af því hvernig íþrótta- og ungmennafélögum hefur gengið að kynna íþróttastarf fyrir fólki af erlendum uppruna og ná betur til barna erlendra foreldra.

ÍSÍ og UMFÍ ýttu verkefninu Vertu með! úr vör í fyrrahaust. Þar voru kynntir bæklingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins, æfingagjöld, frístundastyrkir og fleiri upplýsingar. Fimm styrkir voru veittir til að halda áfram með verkefnið. Á þessum fundi ÍSÍ og UMFÍ voru sagðar sögur af því hvernig reynslan hefur verið og hvað megi gera betur til að ná til erlendra fjölskyldna.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir hjá Rannsóknum og greiningu fjallaði um muninn á íþróttaiðkun barna af erlendum uppruna og íslenskra barna sem eiga íslenska foreldra. Hún sagði töluverðan mun þar á, vísbendingar væru um að hlutfallslega fleiri börn íslenskra foreldra eða foreldra þar sem íslenska er töluð á heimilinu stundi íþróttir í skipulögðu starfi en barna þar sem annað tungumál er talað. Skoða verði málið betur.

Juan Camilo, ráðgjafi í æskulýðs- og fjölmenningarfærni hjá Unglingasmiðju Reykjavíkurborgar, sagði ekki nóg gert hér á landi til að ná til fólks af erlendum uppruna og kynna fyrir þeim það sem þeim stendur til boða. Hann sagði m.a. sögu af vini sínum frá öðru landi sem hafi eignast barn. Sá hafi unnið og unnið og enginn sagt honum frá því að feður geti fengið fæðingarorlof!

Loks sagði Hildur Karen Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness, reynslusögu af þeirri leið sem hún notaði til að ná betur til foreldra barna af erlendum uppruna á Akranesi. Það verði að gera í gegnum skólana og fylgjast með því hvort börnin stundi íþróttir eða ekki.

Líkar þetta

Fleiri fréttir