Iddi Biddi kominn á fertugsaldurinn

Spaugfuglinn Ingi Björn Róbertsson, eða Iddi Biddi eins og margir þekkja hann, er þrítugur í dag. Hann sló til  veglegrar veislu á Gamla Kaupfélaginu í gærkvöldi með vinum í tilefni af afmælinu. Ingi Björn  er fæddur og uppalinn í Borgarnesi en flutti á Akranes fljótlega eftir grunnskóla „fyrir rúmum 10 árum síðan,“ eins og ein systir hans orðaði það í samtali við blaðamann. Iddi Biddi er menntaður blikksmiður og starfar sem slíkur hjá Blikksmiðju Guðmundar á Akranesi. Sólahringurinn er þó varla nógu langur fyrir þennan orkumikla mann sem hefur mörg áhugamál og er sjaldan langt undan í hinum ýmsum viðburðum sem tengjast menningu og tónlist. Ingi Björn er þannig orðin mörgum Skagamönnum kunnur fyrir léttleika, fíflaskap og læti. Vinir hans lýsa honum sem manni með einstaklega gott geðslag sem gengur í öll verkefni og hlutverk sem þarf að sinna með gleði og jákvæðni. Hann kemur mikið að veislustjórn og skipulagningu viðburða ásamt því að vera mikið á ferðinni með hljómsveitinni Blandi þar sem hann er trommuleikari, eða sem plötusnúðurinn DJ Red Robertsson.

Ingi Björn á fimm systur og tvo bræður. Sjálfur segir hann systur sínar og móður hafa mótað sig með mikilli ást og stríðni og að hann sé ævinlega þakklátur fyrir að hafa verið umvafinn svo mörgum sterkum og skemmtilegum konum alla tíð!  Aðspurður segist Ingi Björn vera farin að láta sig dreyma um að eignast fjölskyldu með konu af Skaganum og sjái fyrir sér fallegt einbýlishús á efri Skaganum með stórum sólpalli og góðu grilli. Systur hans vilja koma því á framfæri að Iddi Biddi er á lausu.

Ingi Björn er hér á myndinni með systkinum sínum og foreldrum. Ragnari Má,  Mörthu Lind, Sigríði Lind, Guðveig Lind, Agli, Kristínu Lilju og Sonju Lind. Móðir þeirra er Eygló Lind og faðir hans Robert Crosby.

Líkar þetta

Fleiri fréttir