Hér er verið að plægja strengina síðasta spölinn heim að Lambastöðum. Ljósmyndir: Óskar Þór.

Þrír fasar komnir heim að Lambastöðum

Í gær var lokið við að plægja í jörðu nýjan rafstreng að Lambastöðum á Mýrum. Auk Lambastaða komast bæirnir Leirulækur og Leirulækjarsel í samband. Þetta er fyrsti áfangi að þriggjafasa rafvæðingu Mýranna. Samhliða rafstrengnum er lagt ídráttarröð fyrir ljósleiðara en verkefnið er skipulagt þannig að samlegðaráhrif verði sem mest í þessum tveimur verkefnum. Við þetta tækifæri mættu meðal annars fulltrúar Borgarbyggðar, Búnaðarfélags Mýramanna og Rarik og fylgdust með þegar strengurinn var plægður síðustu metrana heim að tengivirki á bænum. Lilja Björg Ágústsdóttir forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar framkvæmdi þann táknræna gjörning að klippa á kapalinn þegar búið var að plægja strenginn alla leið.

Ríkisstjórnin samþykkti í vetur að tillögu Þórdísar Kolbrúnar R Gylfadóttur iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að lagt yrði til ákveðið flýtigjald og áhersla lögð á að ljúka þrífösun rafmagns á Mýrum annars vegar og í Skaftárhreppi hins vegar. Með tilkomu flýtigjalds varð mögulegt að nýta samlegðaráhrif með lagningu ljósleiðara í Borgarbyggð og þriggja fasa rafmagns um Mýrarnar á árunum 2019 – 2022. Samkvæmt verkáætlun Rarik er svæðinu skipt upp í þrjá aðskilda verkhluta sem koma til framkvæmda á jafn mörgum árum.

Nokkur stór kúabú eru á Mýrum og hafa heimamenn sótt það fast að þrífösun rafmagns verði flýtt sem kostur er. Tækjabúnaður í nútímafjósum er hannaður með tilliti til aðgangs að þriggja fasa rafmagni. Þá er stýring búnaður og eftirlit jafnframt mjög háð því að fjarskiptasamband sé tryggt og því er lagning ljósleiðara jafnframt mikilvæg í ljósi þess að fjarskiptasamband er víða stopult á svæðinu. „Þetta er frábær áfangi í samgöngubótum og flott fyrir samfélagið okkar,“ segir Halldór Gunnlaugsson bóndi á Hundastapa og stjórnarmaður í  Búnaðarfélagi Mýramanna af þessu tilefni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir