Hallsteinn Sveinsson framan við Safnahúsið. Ljósm. Guðmundur Guðmarsson fv. safnstjóri.

Sýningin Hvar, hver, hverjar opnuð í Safnahúsi

Laugardaginn 18. maí kl. 13 verður opnuð sýning í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar sem ber yfirskriftina Hvar – Hver – Hverjar. Vísar það í þær meginstoðir sem hafðar voru í huga við val á verkum á sýninguna; tímann, bakhjarl safnsins, og mikilvægt framlag kvenna.

Hver staður hefur sín sérkenni sem myndar staðaranda og aðgreinir einn stað frá öðrum. Júlíus Axelsson skráði með myndmáli byggingar og tíðaranda Borgarness sem að hluta er horfinn en verður nú hægt að skoða á sýningunni.

Gjöf Hallsteins Sigurðssonar er meginuppistaða safnkosts Safnahússins. Hver var þessi maður sem eyddi drjúgum tíma af lífsstarfi sínu í að ramma inn myndir fyrir starfandi listamenn og fékk oft greitt í verkum sem nú er dýrmætur hluti menningararfs okkar. Svipsterkt andlit Hallsteins varð mörgum listamönnum kveikja til sköpunar. Teikningar, málverk og höggmyndir verða sýnd á sýningunni. Einnig er áhugavert að velta fyrir sér sérkennum fólks og hvernig samtíminn hefur tilhneigingu til að afmá þau.

Hverjar – vísar í valin verk eftir konur og af konum sem dregin verða fram.  Safnið á dýrmæt verk eftir íslenskar konur svo sem Guðmundu Andrésdóttur, Eybjörgu Guðmundsdóttur, Ragnheiði Jónsdóttur og Björgu Þorsteinsdóttur sem allar eru brautryðjendur í sinni sköpun. Hlutverk konunnar sem vinnukona, viskubrunnur, ástmær og tákn sjást í afsteypum Ásmundar Sveinssonar bróður Hallsteins, sem eru hluti af sýningunni.

Sýningarstjóri er Helena Guttormsdóttir myndlistamaður og lektor við LbhÍ. Hún hefur haldið tvær einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýninga og staðið fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um myndlist og skapandi náttúrusýn. Hún starfaði á fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur og vann þar m.a. fræðsluefni um Kjarval og nýsköpunarverkefnið Safnið og samfélagið. Helena var sýningarstjóri umhverfislistasýningarinnar  „Afstaða af stað“ með áherslu á sjálfbærni á Akranesi árið 2012 og sýningar um Hallstein Sveinsson í Safnahúsi árið 2013.

Hallsteinssalur er í Safnahúsinu að Bjarnarbraut 4-6 í Borgarnesi. Opið er til kl. 17.00 á opnunardaginn og eftir það 13.00-18.00 virka daga og 13.00 – 17.00 um helgar. Frá 1. september verður opið 13.00 – 18.00 virka daga. Ókeypis aðgangur er að sýningunni en söfnunarbaukur á staðnum.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir