Skjáskot af Facebook síðu Grundarfjarðarbæjar frá afgreiðslufundi ársreiknings.

Jákvæð niðurstaða í rekstri Grundarfjarðarbæjar

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir síðasta ár var samþykktur í bæjarstjórn við síðari umræðu 9. maí. Í frétt á vef bæjarfélagsins er sagt að reksturinn hafi verið í góðu samræmi við fjárhagsáætlun og að heildartekjur hafi verið 1,1% yfir áætlun og rekstrargjöld 1,8% undir áætlun. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 52,1 milljón króna en í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir 30,8 milljóna króna afgangi. „Niðurstaðan sýnir nokkurn viðsnúning frá árinu 2017, en þá var rekstrarniðurstaða samstæðurnnar neikvæð um 12,2 millj. krónur,“ segir í fréttinni.

Þá kemur fram að fjárfest hafi verið fyrir 95 milljónir króna í fastafjármunum á árinu og tekin ný lán upp á 311 milljónir króna. „Greidd voru niður lán að fjárhæð 148 millj. króna en stærsti hluti lántökunnar var vegna skuldbindingar sem bærinn þurfti að taka á sig vegna samnings við ríkissjóð um uppgjör lífeyrisskuldbindinga við Brú lífeyrissjóð, eða 180,6 millj. krónur“ segir í fréttinni. Heildareignir sveitarfélagsins í árslok námu 2.403 milljónum króna. Skuldir bæjarsjóðs námu 1.481 milljón króna, heildarskuldbingingar A og B hluta námu 1.629 milljónir króna og höfðu þá lækkað um réttar 200 milljónir frá árinu á undan.

Skuldahlutfall var 109,7% í árslok 2018, en var 126,4% árið áður, skv. breyttum reglum um útreikning skuldahlutfalls 2018, í kjölfar uppgjörs sveitarfélaga á lífeyrisskuldbindingum við Brú.“ Eigið fé Grundarfjarðarbæjar samkvæmt ársreikningi var 774,5 milljónir króna í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfall 31,3%, en hafði verið 32,5% árið 2017. Veltufé frá rekstri var 22,3 milljónir króna og handbært fé frá rekstri 107,6 milljónir króna, en hafði verið 9,9 milljónir árið 2017.

Líkar þetta

Fleiri fréttir