Matthildur Maríasdóttir fagnaði 100 ára afmæli sínu í gær og var þessi mynd tekin í gærmorgun. Ljósm. glh.

Söngurinn er sálmur sálarinnar segir 100 ára Matthildur

Matthildur Maríasdóttir á Álftárósi á Mýrum varð hundrað ára í gær, 14. maí. Matthildur er fædd á Gullhúsá á Snæfjallaströnd í Norður-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar hennar voru Marías Jakobsson og Guðrún Jónsdóttir. Átta af níu systkinum hennar komust til fullorðinsára. Þröngt var í búi og fátækt mikil. Bærinn á æskuheimili hennar var til að mynda einungis 15 fermetra torfbær. Var Matthildur því send níu ára gömul í vist til móðursystur sinnar, Egilínu Jónsdóttur, matráðskonu sem þá var bústýru hjá séra Friðriki Friðrikssyni í KFUM í Reykjavík. Gekk hún í Miðbæjarskólann og lærði eftir það sauma á Ísafirði. Maður Matthildar var Einar Sigurbjörnsson rafvirki, en hann lést árið 1975. Börn þeirra er átta og eru sjö þeirra á lífi. Afkomendafjöldinn er kominn í 63. Matthildur og Einar bjuggu fyrst í Reykjavík en um tólf ára skeið frá 1958 í Hjörsey á Mýrum og hefur fjölskyldan haldið tryggð við eyjuna alla tíð síðan. Matthildur var með fyrstu ráðskonum á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi og starfaði þar í níu ár. Síðan 1993 hefur hún búið hjá Ragnheiði dóttur sinni og Einari Erni Karelssyni tengdasyni sínum á Álftárósi. Fyrir um mánuði fékk Matthildur hvíldarinnlögn á sínum fyrrum vinnustað í Brákarhlíð og dvelur nú þar í góðu yfirlæti.

Söngurinn er sálmur sálarinnar

„Ég get ekki útskýrt það,“ svarar Matthildur þegar blaðamaður Skessuhorns spurði hana að morgni afmælisdagsins hvernig tilfinning það væri að halda upp á 100 ára afmæli. Hún vaknaði hress í morgunsárið á afmælisdeginum og tók lagið fljótlega eftir að hún fór á fætur. „Það veitir á gott þegar ég byrja að syngja, þá er ég í góðu skapi,“ útskýrir hún og brosir. Matthildur kveðst alltaf hafa verið glöð í sálinni og sátt við tilveruna í gegnum tíðina. „Söngurinn er sálmur sálarinnar,“ bætir hún við og sönglar fyrir gestinn. Börn Matthildar lýsa móður sinni sem glaðlyndri konu og að hún hafi alltaf átt auðvelt með að sjá það spaugilega í lífinu. „Barnið þarf að geta vaxið áfram,“ segir afmælisbarnið um hvernig maður getur haldið í léttleikann.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir