Samkvæmt niðurstöðu í dómi Grímsness- og Grafningshrepps geta sveitarfélögin Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur á Vesturlandi vænst verulegra fjárhæða frá ríkinu. Hvalfjarðarsveit 303 milljóna og Skorradalshreppur 35 milljóna.

Ríkið dæmt til að greiða sveitarfélögum hundruð milljóna

Allar líkur eru á að íslenska ríkið þurfi að greiða fimm sveitarfélögum samtals 683 milljónir króna eftir að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í máli Grímsness- og Grafningshrepps gegn ríkinu í gær, þriðjudaginn 14. maí. Ríkinu er gert að greiða hreppnum 234 milljónir, auk vaxta. Málið snýst um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, ekki síst vegna flutnings grunnskólanna til sveitarfélaganna á sínum tíma. Ríkið skerti þær greiðslur til hreppsins á árunum 2013 til 2016. Um er að ræða jöfnunarframlög sem tengjast tekjutapi vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti og vegna launakostnaðar sveitarfélaga vegna kennslu í grunnskólum auk annars kostnaðar, svo sem vegna þjónustsamninga og sérþarfa bæði fatlaðra nemenda og innflytjenda. Greiðslurnar til Grímsnes- og Grafningshrepps voru felldar niður þar sem heildartekjur sveitarfélagsins af útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa var meira en 50% hærri en meðaltal miðað við fullnýtingu tekjustofnanna.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að reglugerð veitti ríkinu ekki fullnægjandi heimild til að fella greiðslurnar niður. Til þess hefði þurft að breyta lögunum. Ríkinu var því gert að greiða hreppnum þá fjárhæð sem um var deilt, eða 234 milljónir sem fyrr segir.

Fjögur önnur sveitarfélög hafa höfðað sambærilegt mál á hendur íslenska ríkinu, þar af tvö á Vesturlandi. Þau eru Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur en auk þeirra Ásahreppur og Fljótsdalshreppur. Á Vísi er haft eftir Óskari Sigurðssyni lögmanni í gær, sem fer með mál sveitarfélaganna fimm gegn ríkinu, að gert hafi verið samkomulag um að eitt mál yrði flutt og að niðurstaða þess myndi ráða hinum fjórum málunum. Á Óskar því von á að mál hinna sveitarfélaganna þurfi ekki að fara fyrir dóm heldur muni ríkið gera upp við sveitarfélögin eftir dóm Hæstaréttar í gær.

Hvalfjarðarsveit krafðist þess að fá 303,6 milljónir króna yrðu endurgreiddar, Skorradalshreppur 35,5 milljónir, Ásahreppur 69,3 milljónir og Fljótsdalshreppur 40,4 milljónir. Alls nema kröfur sveitarfélaganna á hendur ríkinu því um 683 milljónum króna, auk vaxta. Þar að auki segir Óskar í samtali við Vísi að sveitarfélögin muni krefjast þess að fá greiðslur vegna sambærilegra skerðinga á árunum 2017 til 2019. Því sé viðbúið að sú fjárhæð sem ríkið hefur verið dæmt til að greið sveitarfélögunum muni hækka.

Líkar þetta

Fleiri fréttir