Árni Ásgeirsson er hér lengst til hægri að sýna gestum smásjánna en hún vakti mikla lukku á sýningunni. Ljósm. tfk.

Glæsileg verkefnasýning í FSN

Það var mikið um að vera í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði kennsluvikuna 6. til 10. maí. Undanfarnar annir hefur síðasta fasta kennsluvika verið verkefnavika þar sem nemendur vinna lokaverkefni, ýmist einstaklings eða samvinnuverkefni þar sem reynir á þá þekkingu, leikni og hæfni sem þeir hafa öðlast í náminu.

Um allan skólann mátti sjá vinnandi hendur þar sem nemendur voru ýmist að ljúka vinnu lokaverkefna sinna í hinum ýmsu námsáföngum eða að kynna verkefni sín í kennslustundum.  Samhliða því þurftu nemendur að undirbúa sýningu verkanna, en föstudaginn 10. maí var opið hús í skólanum þar sem  gestum var boðið að koma og kynna sér afrakstur vinnu nemenda.  Á sýningunni voru mjög fjölbreytt verk en þar má nefna nytjamuni eins og t.d. fuglahús, listaverk margskonar s.s. skúlptúra og málverk, fræðslumyndbönd, veggspjöld, frumsamdar sögur, fjölbreytt spil bæði á íslensku og ensku sem gestum stóð til boða að spreyta sig á. Verkefni nemenda voru einkar glæsileg og greinilega lögð mikil vinna í mörg þeirra.

Fimmtudaginn 9. maí var dimission þar sem verðandi stúdentar mættu búningaklæddir í skólann með tilheyrandi fögnuði sem lauk með hefðbundnu vöfflukaffi á kennarastofu. Daginn eftir kynnti hluti þeirra lokaverkefni til stúdentsprófs sem þeir hafa unnið að alla önnina. Verkefnin eru mjög fjölbreytt þetta árið allt frá hefðbundnum ritgerðum yfir í hlaðvörp og heimildamyndir.

Það er samhljóða álit kennara og nemenda að þessi vika hafi gengið vel og var mikil gleði með sýningardaginn sem var í fyrsta skipti haldinn með þessu sniði. Það er von okkar að sýningardagur í lok verkefnaviku veki áhuga nærsamfélagsins og að sem flestir geri sér ferð til að kynna sér fjölbreytta vinnu nemenda hér í Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

-hh

Líkar þetta

Fleiri fréttir