Edit Ómarsdóttir og Davíð Reynir Steingrímsson, eiginmaður hennar, keyptu hús við Furugrund og tók það allt í gegn. Húsið var allt upprunalegt. Ljósm. arg.

Gerðu upp einbýlishús sem var fram að því í upprunalegu ástandi

Vorið 2017 keyptu hjónin Edit Ómarsdóttir og Davíð Reynir Steingrímsson einbýlishús við Furugrund á Akranesi. Húsið var allt upprunalegt með rafmagnskyndingu, upprunalegum innréttingum, gólfefnum og veggjum sem höfðu aðeins einu sinni verið málaðir. Þá voru allar leiðslur og lagnir upprunalegar og komnar á tíma. Þau Edit og Davíð gerðu húsið upp og fluttu inn í nóvember sama ár. Blaðamaður Skessuhorns kíkti nýverið í heimsókn til þeirra og fékk að sjá breytingarnar á húsinu og ræddi við Edit um framkvæmdirnar. Það var afi Editar sem bjó í húsinu á undan þeim. „Við keyptum húsið af fjölskyldunni eftir að afi lést. Við vildum halda húsinu innan fjölskyldunnar og við vorum líka ánægð að komast í hús á einni hæð. Áður bjuggum við í þriggja hæða húsi við Suðurgötu. Ég ólst líka upp í þessu hverfi og finnst ég eiginlega bara komin heim núna,“ segir Edit um leið og hún sýnir blaðamanni húsið.

Reyndu að nýta allt sem þau gátu

„Við rifum upp gólfefni, skiptum um eldhúsinnréttingu, lagnir og ofna. Annars reyndum við að endurnýta það sem við gátum til að vera umhverfisvæn. Gluggar og hurðar fengu til dæmis bara smá málningu,“ segir Edit og bendir blaðamanni á að engin opnanleg fög eru í gluggunum. „Hér opnar maður lúgu undir gluggunum til að lofta út,“ segir hún og hlær. Þau tóku út öll gólfefni, skiptu um innréttingu í eldhúsinu en keyptu til þess notaða innréttingu. „Við þurftum að grafa upp allan garðinn og skipta um neyslulagnir og skólp og svo þurfti að skipta um raflagnir og ofna því hér voru ennþá bara rafmagnsofnar.“

Edit og Davíð gerðu einnig upp húsið sem þau bjuggu í á Suðurgötunni. „Þetta er mikil vinna og kannski ekki alltaf skemmtilegt á meðan á þessu stendur. En það er svo gaman að fylgjast með breytingunum og sjá svo niðurstöðuna. Ég mæli klárlega með því að allir prófi þetta, að skapa sitt eigið heimili svona, og ég bíð spennt eftir næsta húsi hjá okkur,“ segir hún og hlær. „Við gerðum þetta mikið til sjálf með aðstoð góðra vina en fengum pípara til að sjá um allar vatnslagnir,“ segir Edit að endingu.

Sjá myndasyrpu úr heimsókninni í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir