Ferguson á Keldum 1949. Ljósm. Þjóðminjasafnið.

Afmælishátíð vegna sjötíu ára sögu Ferguson á Íslandi

Það er ekki ofsögum sagt að tilkoma Ferguson dráttarvélarinnar hingað til lands hafi öðru fremur átt stóran þátt í þeim miklu breytingum og framförum sem urðu í íslenskum landbúnaði um og upp úr 1950. Að öðrum dráttarvélategundum ólöstuðum. Í tilefni þess að nú eru 70 ár síðan fyrstu Ferguson dráttarvélarnar voru kynntar og sýndar á Keldum í Mosfellssveit 13. maí 1949 að viðstöddum helstu framámönnum í íslenskum landbúnaði, ætlar Fergusonfélagið að efna til hátíðar og sýningar á Blikastöðum í Mosfellssveit laugardaginn 18. maí milli klukkan 12 og 17. Sýndar verða Ferguson dráttarvélar af elstu gerðunum ásamt tilheyrandi tækjum. M.a. annar af þeim Fergusonum sem sýndir voru á Keldum 1949 og einhverjum af þeim tækjum sem þar voru kynnt.

Hilmar Össurarson ritari Fergusonfélagsins opnar sýninguna í hádeginu, en svo skemmtilega vill til að hann er starfsmaður á Keldum um þessar mundir. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri, höfundur bókarinnar „…og svo kom Ferguson“  minnist með ávarpi komu fyrstu vélanna og áhrifa þeirra.

Í gamla fjósinu á Blikastöðum hafa áhugamenn um að gera upp gamlar landbúnaðarvélar haft aðstöðu í nokkur ár til að sinna sínum hugðarefnum. Er þar vísir að safni listilega vel uppgerðra véla af ýmsum gerðum. Einnig gefst kostur að sjá þar vélar sem verið er að vinna að á ýmsum stigum uppgerðarinnar. Allir eru velkomnir að Blikastöðum á laugardaginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir