Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. Ljósm. úr safni/ kgk.

Vinna við mótun nýrrar heildarsýnar í menntamálum á Akranesi

Vinnu við framtíðaráherslur í menntamálum Akraneskaupstaðar var ýtt úr vör í vetur, en einn liður í því var samtal bæjaryfirvalda við menntamálaráðherra. „Þessi vinna sem komin er af stað snýr að því að móta heildarsýn á menntun í bæjarfélaginu til frambúðar. Við viljum eiga samtal við fagfólk, bæjarbúa og við menntamálaráðuneytið varðandi menntamál og áherslur þar, þannig að hér séum við sem best undirbúin að takast á við framtíðina,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. „Með framtíðinni á ég ekki síst við fjórðu iðnbyltinguna, sem mun hafa í för með sér mörg tækifæri fyrir fólk en líka miklar breytingar. Ýmis störf sem fólk gegnir í dag, einhæfari og ekki endilega spennandi störf, munu í framtíðinni verða leyst af vélmennum og hugbúnaðarlausnum eftir því sem gervigreindinni fleytir fram. Tæknimöguleikar til að takast á við umhverfisvandamál eða fyrirsjáanlegan matvælaskort heimsins þar sem t.d. líftækni, nanótækni og internet munu koma við sögu,“ segir hann.

Skólinn taki ekki enda þar sem byggingin endar

Í ítarlegu viðtal við Sævar Freyr í Skessuhorni vikunnar er meðal annars rætt um hugmynd sem tengist þessu viðfangsefni og snýst um að bærinn verði tilraunasveitarfélag og taki að sér rekstur Fjölbrautaskóla Vesturlands. Viðræður hafa staðið við menntamálaráðherra um það. „Þannig sjáum við fyrir okkur að halda betur utan um einstaklinginn og tryggja samfellu í námi allt frá að hann byrjar í leikskóla og þar til hann lýkur framhaldsskólagöngu,“ segir hann. „Til að svo megi verða þarf ýmsu að breyta, þar á meðal skilunum sem eru á milli skólastiga. Leyfisbréf kennara í dag sníða kennurum fremur þröngan stakk þegar kemur að kennslu milli skólastiganna. Við viljum gjarnan geta nýtt hæfni okkar hæfileikaríku kennara á fleiri en einu skólastigi,“ segir Sævar. „Til að svo megi verða þurfum við að hætta að hugsa þannig að skóli taki enda þar sem byggingin endar. Mikilvægast er að ræða hvað gert er innan veggjanna og þróun menntunar,“ segir hann. „Jafnframt viljum við búa til tengingu við atvinnulífið og vinna með framsæknum fyrirtækjum hér í bæ í því að bjóða raunhæf verkefni fyrir nemendur og stuðla þannig að því að skapa spennandi störf fyrir vel menntað fólk. Það mun nýtast fyrirtækjunum í bænum, efla menntunarstig bæjarins, frístundastarf og forvarnir.“

Sjá nánar heilsíðuumfjöllun í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir