Á vettvangi um svipað leyti og slökkvistarfi var að ljúka í gærkvöldi.

Áhersla verður lögð á að koma starfseminni í gang sem allra fyrst

Miklar skemmdir eru á húsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut 10 á Akranesi eftir bruna sem varð í húsinu seint í gærkvöldi. Í húsinu er rekinn vinnu- og hæfingarstaður og tugir einstaklinga sem þar starfa. Eðli málsins samkvæmt er bruninn áfall fyrir starfsfólkið í Fjöliðjunni. Til að halda því sem best upplýstu og ræða saman, var starfsfólki boðið í morgun á heimili Ástu Pálu Harðardóttur yfirþroskaþjálfa. „Við áttum afskaplega góða stund saman og það var gagnlegt að geta rætt við fólkið í rólegheitunum, ekki síst til að draga úr óvissu og róa fólkið,“ sagði Guðmundur Páll Jónsson forstöðumaður Fjöliðjunnar í samtali við Skessuhorn í morgun. „Þar sem ljóst er að starfsemi verður ekki í húsinu um hríð verður lögð áhersla á að finna húsnæði til bráðabirgða. Við höfum fjölda viðskiptavina; almenning og fyrirtæki, sem við vinnum ýmis verkefni fyrir og munum leggja áherslu á að koma starfsemi okkar í gang hratt og örugglega. Fólkið sem hjá okkur starfar vill auk þess komast sem fyrst til vinnu. Ég vona að í dag muni málin skýrast varðandi bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemina,“ sagði Guðmundur Páll.

Akraneskaupstaður á húsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut 10. Bæjarstjóri og yfirmenn tæknideildar skoðuðu aðstæður á vettvangi í morgun og stefna á, ásamt forsvarsmönnum Fjöliðjunnar, að finna lausn með húsnæði til bráðabirgða. Aðgangur er bannaður að húsinu þar til rannsóknadeild lögreglunnar hefur lokið störfum. Eftir á að skoða húsið og freista þess að finna orsakir brunans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir