Horft inn um brotna rúðu á vinnusal starfsfólks. Þar inni er allt ónýtt. Ljósmyndir: Skessuhorn/mm.

Mikið tjón á húsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut

Ljóst er að hefðbundin starfsemi verður ekki í vinnu- og hæfingarstaðnum Fjöliðjunni við Dalbraut 10 á Akranesi eftir að eldur varð laus í húsinu laust fyrir klukkan 21:30 í kvöld. Allt tiltækt slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað á staðinn. Slökkvistarf gekk greiðlega og tók um 20 mínútur að ráða niðurlögum eldsins.Engin starfsemi eða mannskapur var í húsinu þegar eldurinn kom upp. Það var vaktmaður frá Securitas sem varð eldsins var og kallaði til slökkvilið.

Strax var hafist handa við að reykræsta húsið, en reyk lagði um alla bygginguna. Mikið tjón er á húsinu, mest í vinnusal í austurenda þess, en reykskemmdir eru í því öllu. Rannsóknadeild Lögreglunnar á Vesturlandi mun hefja rannsókn á orsökum brunans í kvöld og áfram í fyrramálið. Vakt verður áfram við húsið.

Þessi mynd er tekin í þann mund að slökkvistarf var að hefjast.

Hér er slökkvilið í þann mund að komast fyrir eldinn í byggingunni.

Í Fjöliðjunni fer fram fjölbreytt starfsemi. Allt sem er í vinnusal er ónýtt af eldi, hita og reyk.

Eldvarnarhurð í austurenda hússins, við dósamóttökuna hélt. Hún var hins vegar opnuð til að reykræsta mætti í gegnum húsið.

Slökkvistarfi lauk fyrir klukkan 22 í kvöld.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir