Jón Sigurðsson var framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins í tvo áratugi. Ljósm. kgk.

„Vissi ekkert í minn haus þegar ég tók við starfinu“

Íslenska járnblendifélagið var stofnað af íslenska ríkinu árið 1975 til að annast byggingu og rekstur kísiljárnsverksmiðju á Grundartanga. Jón Sigurðsson tók við framkvæmdastjórastarfi félagsins árið 1977, en þá var bygging verksmiðjunnar enn í fullum gangi. Tveimur árum síðar hófst framleiðsla kísiljárns og stendur enn yfir. Jón átti eftir að gegna starfinu í hvorki meira né minna en tvo áratugi, eða fram til ársins 1997. Skessuhorn hitti Jón að máli á dögunum og ræddi við hann um aðdragandann að byggingu verksmiðjunnar, góðu árin og þau mögru og sitthvað fleira frá fyrstu áratugum kísiljárnsframleiðslu á Grundartanga.

„Aðdragandinn að byggingu Járnblendiverksmiðjunnar var sá að íslenska ríkið hafði samið við bandaríska fyrirtækið Union Carbide um að reisa slíka verksmiðju og eiga á móti ríkinu. Sá samningur var ein forsenda þess að ráðist var í Sigölduvirkjun á sínum tíma,“ segir Jón í samtali við Skessuhorn. „Þegar allar framkvæmdir voru komnar af stað fór ekki betur en svo að Union Carbide rifti samningnum. Hvers vegna veit ég ekki, en eftir stóð ríkið með þessa ráðagerð og stóra holu á verksmiðjusvæðinu á Grundartanga. Þá var leitað til Elkem í Noregi og samið við þá að mig minnir undir lok árs 1976,“ segir Jón.

Elkem var á þeim tíma sem nú stór framleiðandi kísiljárns og seldi bræðsluofna um allan heim. „Norðmennirnir lögðu til tækni og þekkingu við byggingu verksmiðjunnar á Grundartanga, hún er til dæmis mjög lík verksmiðju Elkem í Salten í Noregi,“ segir hann.

Sjá ítarlegt viðtal við Jón Sigurðsson í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir