ARN

Nýtt viðbótargjald Póstsins kemur sér illa fyrir landsbyggðina

Íslandspóstur breytti 15. janúar síðastliðnum verðskrá fyrir bögglasendingar í dreifbýli innanlands. Breytingin felur það í sér að þyngdarviðmið fyrir pakkasendingar heim að dyrum í dreifbýli var fært úr 30 kg. niður í 20 kg. og vísað til 6. grein laga um póstþjónustu. Verð miðast auk þess við svokallaða rúmmálsþyngd þegar hún er meiri en raunþyngd sendingar. Móttakandi þyngri sendinga ákveður nú hvort hann greiðir fyrir áframsendingu vörunnar með landpósti af pósthúsi og heim að dyrum, eða sækir hana sjálfur á pósthús. Þá er sendandi upplýstur við rafræna skráningu um að hann sé einungis að greiða fyrir sendingu vörunnar á pósthús. Samkvæmt gjaldskrá Íslandspósts kostar akstur með landpósti fyrir sendingar yfir 20 kíló samkvæmt kílómetragjaldi 266 kr/km, en lágmarksgjald er 2.660 kr. með vsk. Þannig kostar til dæmis 16.758 krónur að senda 20 kílóa pakka með landpósti frá Borgarnesi í Húsafell. Gjald sem áður var innifalið í sendingarkostnaði.

Þessi gjaldskrárbreyting var lítt eða ekkert kynnt íbúum á landsbyggðinni og er að koma þeim á óvart. Snorri Jóhannesson ferðaþjónustubóndi á Hraunfossum segir að breytingin komi sér afar illa fyrir fyrirtæki hans. Nú þurfi hann að velja hvort hann aki sjálfur í Borgarnes eftir bögglasendingum yfir 20 kíló, eða kjósi að greiða viðbótargjald fyrir þjónustuna. Hér sé því um nýtt gjald að ræða fyrir rekstur hans, en áður en til breytingarinnar kom var flutningur böggla og pakka greiddur af sendanda fyrir að koma sendingunni til skila alla leið. „Íslandspóstur ætti að hætta að auglýsa „pakkinn alla leið.“ Það eru einfaldlega öfugmæli því í mörgum tilfellum er nú ódýrast fyrir viðskiptavini á landsbyggðinni að fá alls ekki Íslandspóst til að flytja fyrir sig vöruna „alla leið“. Þetta er öfugsnúið þar sem landpóstar aka hvort sem er á alla bæi í dreifbýlinu ýmist tvisvar eða þrisvar í viku. Svo er þetta náttúrlega ekki sérlega umhverfisvænt,“ segir Snorri Jóhannesson sem rekur veitingastaðinn við Hraunfossa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir