Svipmynd frá hlaupi í Haukadal á Jörfagleði 2017. Ljósm. úr safni.

Jörfagleði hefst í Dölum síðasta vetrardag

Jörfagleði, menningarhátíð Dalamanna, hefst í vikunni, síðasta vetrardag miðvikudaginn 24. apríl. Hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár síðan 1977. Líkt og venja er fyrir verður dagskráin með fjölbreyttu sniði og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. „Undirbúningur hefur gengið mjög vel og það er allt að verða tilbúið,“ segir Bjarnheiður Jóhannsdóttir, ferðamálafulltrúi Dalabyggðar og skipuleggjandi hátíðarinnar í samtali við Skessuhorn. „Hátíðin hefst með leiksýningu frá Leikfélagi Hólmavíkur í Dalabúð á miðvikudagskvöldið. Karlakórinn Söngbræður verða með tónleika á Sumardaginn fyrsta í Dalabúð. Á föstudagskvöldinu fáum við Kómedíuleikhúsið með sýningu um Gísla Súrsson, á laugardagskvöldinu verður söngskemmtun á Staðarfelli og á sunnudagskvöldinu verður spurningakeppni í Dalabúð en það er sterk hefð fyrir henni. Fólk keppir í þriggja manna liðum og það er oft þannig að fyrirtæki eða vinnuhópar taka sig saman og mynda lið. Þetta er mikið fjör og virkilega skemmtilegt,“ segir Bjarnheiður.

Heimamenn bjóða heim

Alla hátíðina verður opin ljósmyndasýning Grímu Kristinsdóttur á Vogi og þangað geta gestir komið við og skoðað sýninguna og fengið sér að borða eða sest niður með kaffibolla. Þá ætla nokkrir heimamenn að opna heimili sín fyrir gesti. Á laugardeginum verður opið hús á tveimur bæjum í Hörðudal; Seljalandi og Hlíð. „Þarna búa ferðaþjónustuaðilar sem ætla að opna dyrnar fyrir fólk sem vill koma og skoða. Í Hlíð er nýlega búið að byggja bragga þar sem nú er veitingastaður sem er eflaust gaman að skoða. Helgi Þorgeir Friðjónsson á Kjarlaksstöðum ætlar að bjóða fólki að kíkja á vinnustofuna sína á sunnudeginum og þangað er eflaust mjög skemmtilegt að koma,“ segir Bjarnheiður. „Við viljum virkja skapandi hlið Dalamanna og verðum því með tvær mjög skemmtilegar smiðjur á hátíðinni. Það verður leiksmiðja fyrir börn og unglinga þar sem Þorgrímur á Erpsstöðum mun gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum. Svo verðum við með skapandi skrif fyrir alla. Þar mun Davíð Stefánsson aðstoða fólk við að draga fram skemmtilega og spennandi texta,“ bætir Bjarnheiður við.

Skorar á fólk að mæta á hátíðina

Á laugardagsmorgninum verður kapphlaup/ganga upp að Tregasteini í Hörðudal. Sögð verður sagan af því hvernig Tregasteinn fékk sitt örnefni. Sá sem er fyrstur upp og aftur niður fær viðurnefnið Tregasteinskóngur/drottning 2019. En gangan/hlaupið hentar vel fyrir alla og hver og einn fer á eigin hraða. Þá verður Víðavangshlaup UDN á Fellsströnd á sunnudagsmorgninum klukkan 11. Hlaupið verður frá afleggjaranum á Dagverðanesi að Vogi og er hlaupið um 4 kílómetrar. „Þetta hentar allri fjölskyldunni og svo að hlaupi loknu er hægt að gæða sér á súpu á Vogi,“ segir Bjarnheiður. Á sunnudeginum mun Þórunn Guðmundsdóttir sagnfræðingur segja söguna af láti Kristína Sigurðardóttur, vinnukonu á Sámsstöðum, sem lést með grunsamlegum hætti en lát hennar var aldrei almennilega rannsakað. „Það er gaman þegar svona mál eru rannsökuð eftirá og við ætlum aðeins að velta þessu fyrir okkur,“ segir Bjarnheiður. „Það er vert að minnast á að skátafélagið Stígandi verður með kaffisölu í Dalabúð á Sumardaginn fyrsta og er það gott tilefni til að gera sér ferð í Búðardal þann dag. Svo verður opnun á örsýningu myndlistarkvenna í Dölum sem kalla sig Brennuvarga. Þar verður opnuð sýning á litlum listaverkum úr leir sem brenndur var í lifandi eldi úti í móa. Auk þess verður sýnd stuttmynd um ferlið hvernig leirmunirnir voru unnir. Ég skora á fólk að mæta á hátíðina, taka þátt og njóta með okkur, bæði heimamenn og nærsveitunga líka,“ segir Bjarnheiður að endingu. Þetta er aðeins brot af því sem í boði verður á hátíðinni en nánari upplýsingar er hægt að finna á www.dalir.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir