Mæðgur í haga. Ljósm. úr safni/mm.

Umgangspest herjar á hrossastofninn

Töluvert hefur borið á því að undanförnu að hross hafa veikst af einhverskonar smitandi umgangspest. Að sögn Kristínar Þórhallsdóttur dýralæknis á Laugalandi í Borgarfirði hefur ekki enn fengist staðfest hvernig pest er um að ræða og því ekki verið gefin út yfirlýsing af hálfu MAST. Kristín segir pestina í flestum hrossunum sem veikjast lýsa sér sem almennur slappleika og lystarleysi. Hjá þeim flestum virðist sem einkenni séu væg og gangi yfir á þremur dögum án þess að þau fái sérstaka meðhöndluð. Önnur hross fá hins vegar hita og jafnvel hrossasóttareinkenni, sparka upp í kvið og líður greinilega illa. Í þeim tilfellum ráðleggur Kristín eigendum að hafa samband við sinn dýralækni sem tekur þau til meðhöndlunar.

Kristín segir nauðsynlegt að fylgjast vel hrossunum. „Ef hitinn fer yfir 38,5 gráður þarf að leita til dýralæknis. Svo virðist sem langflest hrossin sem veikjast séu lystarlaus og dauf, en fái ekki hita. Þeim hrossum sem veikjast meira hefur verið reynt að gefa sýklalyf og verkjastillandi, en meðan ekki er búið að greina hvort hvort veikin er bakteríu- eða veirusýking vitum við ekki hvort sýklalyf geri gagn við meðhöndlun,“ segir hún. Þá segir Kristín misjafnt hversu mörg hross í sama hópnum veikist. Í sumum hesthúsum veikist þau öll, en í öðrum einungis eitt hrossanna. Hún kveðst ekki vita til að hross hafi drepist af völdum þessarar umgangspestar en væntir þess að nú í vikunni eftir páska verði búið að greina sýni sem tekin voru úr veikum hrossum fyrir páska.

Líkar þetta

Fleiri fréttir