Magnús Skúlason bóndi í Norðtungu er jafnframt formaður Veiðifélags Þverár. Hér stendur hann á árbakkanum og fyrir aftan má sjá gömlu brúna við Norðtungu, elstu hengibrú landsins.

Hlunnindabændur munu verja hagsmuni sína með kjafti og klóm

Frá bænum Norðtungu í Þverárhlíð er víðsýnt um sveitina. Bæjarhúsin standa á bökkum hinnar fengsælu Þverár og um hlaðið liðast áin í sveig, rennur undir gömlu brúna við Norðtungu, elstu uppistandandi hengibrú landsins, en neðan við hana er veiðistaðurinn Kirkjustrengur, einn fengsælasti veiðistaður árinnar. Enn neðar er „nýja“ brúin sem tengir Þverárhlíðina vegasambandi við Stafholtstungur og aðrar sveitir í héraðinu. Magnús Skúlason bóndi í Norðtungu dregur engan dul á að veiðihlunnindi skipti sig og jörð sína gríðarlegu máli. Það eigi við um allflesta sem eiga veiðirétt að Þverá. Hann tók fyrir nokkrum árum við formennsku í stjórn Veiðifélags Þverár og ber hag hlunnindabænda fyrir brjósti.

„Það er enginn vafi að hlunnindi af laxveiðitekjum hér í okkar sveit eiga sinn þátt í að hér er búið á flestum bæjum. Fram hefur komið í ýmsum skýrslum að mikilvægi laxveiðhlunninda eru hvergi meiri á landinu en hér í Borgarfirði. Auk arðgreiðslna er einungis okkar veiðiá að veita um tuttugu sumarstörf og hingað í ána eru að koma þeir ferðamenn sem skilja mest eftir sig af öllum þeim ferðamönnum sem til landsins koma. Við sem stöndum í forsvari fyrir þessi veiðifélög þurfum engu að síður að verja okkar hagsmuni með kjafti og klóm. Yfir atvinnugreininni er þrúgandi sú ógn sem verið er að búa til og felst í laxeldi í opnum sjókvíum til dæmis á innfjörðum Vestfjarða. Mér þykir því alveg einstaklega athyglisvert að rifja upp ummæli Einars Kristins Guðfinnssonar fyrrverandi alþingismanns sem sagði í ræðu á þingi fyrir nokkrum árum að veiðar og nytjar á villtum laxi væri undirstaða byggðar í landinu. Ég man að þá var ég afskaplega sammála honum. Að sama skapi er óskiljanlegt að þegar hann hverfur af þingi gerist hann korteri síðar framkvæmdastjóri og talsmaður laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum og undirstrikar með því starfi og þeim áherslum að það er nákvæmlega ekkert að marka manninn.“

Meint laxeldisvelsæld

Engum vafa er undirorpið að málefni veiðiréttareigenda liggja þungt á Magnúsi í Norðtungu. „Mér þykir vænt um Vestfirði og Vestfirðinga. Þegar yfir lýkur og menn verða búnir að átta sig á þeirri vá sem skefjalausu fiskeldi fylgir, spái ég því að þeir verði sjálfir mestu þolendur þessa ævintýris sem ég kalla hina meintu laxeldisvelsæld. Endalok byggðanna fyrir vestan verða ráðin þegar eitthvað alvarlegt kemur upp í þessu verksmiðjueldi. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Á Vestfjörðum er ríkið búið að leggja í gríðarlegar fjárfestingar í samgöngum, að virði til eins og fimm Hvalfjarðargöng myndu kosta. Góðar samgöngur eru vissulega forsenda byggðar og atvinnu og að mínu mati ætti þessi fjárfesting í innviðum á Vestfjörðum að nýtast til að byggja upp fjölbreytta atvinnu, ekki til að fólk flykktist í burtu. En þar taka menn þá pólitísku ákvörðun að byggja afkomu sína á hundrað þúsund tonna laxeldi með norskan frjóan lax í opnum sjókvíum í lokuðum fjörðum. Það eru að mínu mati hrein og klár afglöp allra sem að því koma. Dæmin erlendis frá ættu að hræða, en menn hafa því miður ekki opnað augun fyrir hættunni, eða réttara sagt hafa ekki kjark til þess. Sjókvíaeldi er ekki komið til að vera heldur er bráðabirgða ráðstöfum. Þá bendi ég á að hagsmunaaðilar og ráðamenn hafa ekki á neinum tímapunkti sest niður og rætt kosti þess að báðar greinar, laxeldi og laxveiðar, geti dafnað í sátt og samlyndi og hámarkað hagnað til lengri tíma litið. Þetta hefur allt gengið út á að ryðjast áfram, það kviknar ekki á neinum viðvörunarbjöllum jafnvel þótt Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála dæmi lögmæti eldisleyfa ógilt. Þá setja alþingismenn bara lög á eftirlitið! Ég bendi á að Hafrannsóknastofnun hefur til að mynda gefið það út að helstu hrygningar- og uppeldisstöðvar Norður-Atlandshafsþorsksins séu í Ísafjarðardjúpi. Þar og á öðrum innfjörðum Vestfjarða eru einfaldlega uppeldissvæði allra okkar helstu nytjastofna. Þeim uppeldisstöðvum er stefnt í voða með mengandi eldi í opnum sjókvíum. Varðandi umhverfisþáttinn í þessu eldi bendi ég auk þess á að þegar þetta fiskeldi aflar fóðurs þarf að veiða tæp þrjú kíló af fiski úr sjó til að búa til eitt kíló af fiskafóðri, sem Nota Bene er flutt inn frá Brasilíu. Það sjá því allir hversu arfavitlaus þessi búgrein er og fjandsamleg sótsporinu sem svo mörgum er tíðrætt um á tyllidögum.“

„Alþingismenn bregðast okkur“

Magnús segir að verið sé að vega að hagsmunum og lífsviðurværi fólks í hinum dreifðu byggðum. „Við höfum í hundrað ár haft tekjur af náttúruvænni sölu veiðileyfa til dýrustu ferðamanna sem hingað til lands koma. Nú leyfa menn sér hins vegar að hæðast að okkur í skrifum og telja okkar hagsmuni einskis virði. Menn láta eins og ekkert sé að marka Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem bendir á í nýlegri skýrslu um lax- og silungsveiði að hvorki fleiri né færri en 3.400 lögbýli hafa tekjur af lax- og silungsveiði í hinum dreifðu byggðum landsins og virði greinarinnar er 170 milljarðar króna. Veiðifélögin eru alls 212. Það er því verulega ómaklegt hvernig talað er niður til hlunnindabænda af fólki sem hefur stundarhagsmuni af að þjóna tiltölulega fámennri klíku norskra auðkýfinga og öðrum minni spámönnum sem taka stöðu gegn okkar hagsmunum. En þetta er bóla. Nú þegar eru farnar að berast fréttir af því hvernig hlutabréf í Arnarlaxi ganga kaupum og sölum fyrir tugi milljarða jafnvel þótt afkoma fyrirtækisins sé neikvæð. Það er auk þess gríðarlega alvarlegt hvernig alþingismennirnir, sem eiga að vera að gæta okkar hagsmuna, sjá hag sínum betur borgið með að vinna gegn okkur. Ekki einvörðungu eru þeir að taka stöðu gegn hagsmunum hlunnindabænda, heldur eru þeir að stuðla að risastóru umhverfisslysi og þora ekki að tjá skoðun sína þegar við bændur hittum þá að máli. Því erum við hlunnindabændur í lausu lofti og sækjum ekki stuðning til neinna alþingismanna.“

Kom þeim í sultarfjötra kvótabrasks

Magnús segir að í þessu sambandi sé verstur allra sjálfur ráðherra málaflokksins sem á sínar rætur í stjórnun stórs sjávarútvegsfyrirtækis. „Núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flýkar nú ekki sérlega fallegri ferilskrá. Kristján Þór sat sjálfur við stýrið í Samherja þegar Guðbjörginni var siglt í síðasta skipti frá Ísafirði. Vestfirðingar eiga honum því ekkert að þakka. Kannski telur hann sig hins vegar vera að bæta fyrir tjón sitt nú með að styðja við fiskeldið, hvað veit maður,“ spyr Magnús en bætir við: „Hann er einn af þeim sem kom Vestfirðingum í þá sultarfjötra sem kvótkerfið leiddi af sér og fleiri sjávarbyggðum umhverfis landið. Það væri nær að snúa ofan af þessari þróun og stefna íslenska fiskiskipaflotanum aftur að Vestfjörðum þaðan sem styst er á miðin. Vestfirðingar færu þá aftur að veiða heilnæman og góðan fisk, en verða ekki gerðir að láglaunamönnum við fóðrun norskra frjórra eldislaxa í opnum kvíum. Ræktun sem á endanum mun rústa lífríki þessara fallegu fjarða. Og um leið lífríkinu í öllum laxveiðiám landsins,“ segir Magnús Skúlason að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir