Guðlaugur gluggar hér í nýútkomna bók sína. Ljósm. je.

Guðlaugur gefur út bókina Veturnætur – ljóðmyndir

Guðlaugur Óskarsson fyrrverandi skólastjóri á Kleppjárnsreykjum gaf á dögunum út bókina Veturnætur – ljóðmyndir. Í henni haldast ljóð hans og myndir í hendur. „Veturnætur er sá tími ársins, sem liggur á milli sumars og veturs eftir gamla tímatalinu. Höfundur fyllir um þessar mundir 70 ár og því er hægt að taka undir það sem segir á bókarkápu um veturnætur, að þær eigi sér hliðstæðu í lífsvefnaði manns, þar sem skil verða á milli aldursskeiða.

Guðlaugur hefur lengi tekið ljósmyndir og samið ljóð og þessa fyrstu bók gefur hann út sjálfur þar sem þessi áhugamál tvinnast saman. Ritstjóri er dóttir hans, Hlín Helga, hönnuðir þau Birna Geirfinnsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson hjá Studio – Studio og bókin var prentuð í Lettlandi fyrir milligöngu Prentmiðlunar.

Orð sem vekja hugsun

Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri hefur birt á Facebook síðu sinni eftirfarandi um bók Guðlaugs, Veturnætur:

„Fékk í hendur ljóðabók í gær: Veturnætur heitir hún; ljóðmyndir, kallar höfundurinn, Guðlaugur Óskarsson í Reykholti, formið, enda vefast þar saman ljósmyndir hans og ljóð – öll á hugleiðingaformi, sem ýmsir þekkja af FB-síðu hans.

Mér sýnist sum atvinnuskáldanna þurfi nú að vara sig: Ort er máli sem skilst, orðum sem vekja hugsun, draga athygli að fegurð og hógværð hins náttúrulega og smáa; strái, blómi, vatni, fuglum, líka vináttu, þakklæti, trú. Draga athygli frá ys og þys daglegs amsturs. Áréttað með ljósmyndum sem gefa mörgum ljóðanna vængi.

Allar lýsa ljóðmyndirnar hlýjum, veitandi og þakklátum huga höfundar. Ég mæli eindregið með Veturnóttum. Til dæmis sem sjálfshjálparbók fyrir þá sem eiga erfitt með að höndla huga sinn í heimi óra og ókyrrðar.

Takk fyrir afar góða bók Gulli og til lukku með vel unnið verk!“

Bókin Veturnætur ljóðmyndir verður til sölu hjá höfundi og best að hafa samband við hann í síma 861 5971, á netfangið gudlaugur@vesturland.is  eða á Fb. Einnig er verður bókin til sölu í Snorrastofu í Reykholti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir