Talsvert betri afkoma Snæfellsbæjar en áætlanir gerðu ráð fyrir

Rekstur Snæfellsbæjar var jákvæður um 125,3 milljónir króna á síðasta ári, en gert hafði verið ráð fyrir 22,9 milljóna króna afgangi í fjárhagsáætlun. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en gert hafði verið ráð fyrir, eða sem nemur 102,4 milljónum króna. Þetta kemur fram á vef Snæfellsbæjar, en ársreikningur bæjarfélagsins var til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar síðastliðinn fimmtudag. „Athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og eiga forstöðumenn hrós skilið fyrir árangurinn,“ segir í frétt Snæfellsbæjar.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam rúmum 3,5 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé A hluta tæpum 2,7 milljörðum. Veltufé frá rekstri var 259 milljónir króna og veltufjárhlutfall er 1,55. Handbært fé frá rekstri var 58,2 milljónir króna í árslok 2018.

Heildareignir bæjarsjóðs námu rúmum 4,2 milljörðum króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi námu rúmum 5,4 milljörðum króna í árslok. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu 1,54 milljörðum króna og 1,94 milljörðum í samanteknum ársreikningi. Skuldir hækkuðu milli ára um 180,7 milljónir.

Eigið fé bæjarsjóðs nam 2,67 milljörðum og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam 3,5 milljörðum í árslok. Eiginfjárhlutfall er 63,43% en var 65,89% áður.

Fjárfest var fyrir 369 milljónir á árinu í varanlegum rekstrarfjármunum. Ný lán voru tekin á árinu 2018 að upphæð 328,5 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 156,6 milljónir. „Rétt er að taka fram að stærstur hluti þessarar lántöku, eða 178.502.037- var tekinn vegna uppgreiðslu á samningi milli ríkissjóðs og Snæfellsbæajr um uppgjör lífeyrisskuldbindinga,“ segir á vef Snæfellsbæjar. Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 71,48% í samanteknum ársreikningi en var 69,49% árið áður. Sem kunnugt er má þetta hlutfall ekki vera hærra en 150% skv. sveitarstjórnarlögum. „Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð,“ segir á vef bæjarfélagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir